Þrátt fyrir að vestræn fyrirtæki hafi ummvörpum látið af starfsemi og hætt viðskiptum í Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu láta mörg frönsk stórfyrirtæki sér fátt um finnast. Samkvæmt úttekt The Wall Street Journal hefur lítil breyting orðið á starfsemi og fjárfestingum franskra fyrirtækja í Rússlandi þrátt fyrir hinar viðtæku þvingunaraðgerða sem gripið var til eftir að rússnesk stjórnvöld réðust inn í Úkraínu.
Fram kemur í úttektinni að franski bankinn Société Générale ekki gerð neinar breytingar á starfsemi sinni. En dótturfélag bankans er Rosbank heldur áfram starfsemi þrátt fyrir þvingunaraðgerðirnar. Franski orkurisinn TotalEngergies hefur ólíkt öðrum vestrænum orkufyrirtækjum ekki gefið fjárfestingar sínar í rússneska orkugeiranum upp á bátinn að sögn bandaríska blaðsins.
Þá kemur fram í umfjölluninni að stjórnendur franska bílaframleiðandans Renault, sem franska ríkið á 15% í, reyni nú hvað þeir geta til að koma verksmiðjum sínum í Rússlandi í gang á ný. En þvingunargerðirnar urðu til þess að stöðva framleiðslu þeirra. Stærsti bifreiðaframleiðandi Rússlands er dótturfélag Renault.
Með þessu skera frönsk fyrirtæki sig frá mörgum bandarískum og evrópskum stórfyrirtækjum. Orkufyrirtæki á borð við BP, Shell og Exxon hafa til að mynda lýst því yfir að þau myndu vinda ofan af allri starfsemi og viðskiptum í Rússland. Alþjóðleg fjármálafyrirtæki á borð við Citigroup, sem er einn helsti lánveitandi rússneska hagkerfisins, og Deutsche Bank hafa tilkynnt slíkt hið sama. Og sömu sögu er að segja af alþjóðlegum matvælafyrirtækjum á borð við Kraft Heinz og Unilever.