Frontier Group Holdings, móðurfélag Frontier lággjaldaflugfélagsins, hefur tilkynnt að það ætli að kaupa annað lággjaldaflugfélag, Spirit Airlines, háð samþykki yfirvalda og hluthafa Spirit. Kaupverðið nemur 2,9 milljörðum Bandaríkjadala í formi hlutabréfa og reiðufjár. Þetta kemur fram í grein hjá AP fréttastofunni.

Samsteypa tveggja lággjaldaflugfélaganna verður fimmta stærsta flugfélag Bandaríkjanna og stærsta lággjaldaflugfélagið. Í tilkynningu frá Spirit Airlines segir að sameinaða félagið muni bjóða upp á yfir þúsund dagleg flug til 145 áfangastaða í 19 löndum. Jafnframt ætli félagið að bæta við flugleiðum til Suður- og Mið-Ameríku og til Karíbahafsins.

Frontier mun eiga 51,5% hlut í sameinaða félaginu og Spirit 48,5% og munu kaupin að öllum líkindum ganga í gegn á seinni hluta þessa árs. Ted Christie, forstjóri Spirit, segir að sameiningin muni heilt yfir leiða til betri flugferða fyrir almenning. Hann segir að sameiningin sé til þess gerð að búa til ofurlággjaldaflugfélag sem þjónar viðskiptavinum enn betur.

Gengi bréfa Spirit hefur hækkað um 11% í dag og gengi Frontier hefur hækkað um 6%, þegar fréttin er skrifuð.