Bresk yfirvöld hafa fryst eignir rússneska milljarðamæringsins Roman Abramovich á Bretlandseyjum. Meðal eigna Abramovich á Bretlandseyjum er enska knattspyrnuliðið Chelsea. Grípa bresk yfirvöld til þessara aðgerða vegna tengsla Abramovich við Vladimir Putin, forseta Rússlands, sem eins og þekkt er orðið skipaði her sínum að ráðast inn í Úkraínu. The Times greinir frá þessu.

Abramovich er ekki lengur heimilt að ferðast til Bretlands og er meinað að eiga í viðskiptum við einstaklinga og fyrirtæki sem hafa þar aðsetur.

Knattspyrnufélagið Chelsea hefur þrátt fyrir þetta fengið heimild til að standa fyrir „knattspyrnulegum viðburðum“ (e. football-related activities). Félagið getur því haldið áfram þátttöku í þeim keppnum sem það er þátttakandi í, en næsti leikur þess fer fram í kvöld.

Abramovich greindi frá því í síðustu viku að hann hefði í hyggju að selja Chelsea, en vegna ofangreindra aðgerða breskra yfirvalda mun hann ekki geta selt knattspyrnuliðið. Þar með er framtíð liðsins, sem er eitt það sterkasta í Evrópu og er ríkjandi Meistaradeildarmeistari, í mikilli óvissu.

Heimildir Times herma að til þess að salan nái að fara í gegn þyrftu bresk yfirvöld að veita sérstaka undanþágu. Skilyrði undanþágunnar yrði á þann veg að Abramovich fengi ekki neitt af söluandvirðinu í eigin vasa. „Hann mun ekki fá penní vegna sölu liðsins,“ hefur miðillinn eftir heimildamanni úr röðum yfirvalda.

Auk knattspyrnuliðsins á Abramovich fjölda eigna í London. Þar á meðal er 15 svefnherbergja villa sem staðsett er í Kengsington hverfinu og er metin á rúmlega 150 milljónir punda (26 milljarða króna), og þakíbúð í Chelsea Waterfront sem hann keypti á 22 milljónir punda árið 2018.