Fjölmörg alþjóðleg stórfyrirtæki hafa tekið skref í átt að því að slíta tengsl sín við Rússland í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Breska olíufélagið BP hyggst selja 20% hlut sinn í rússneska olíufélaginu Rosneft en olíufélagið Shell ætlar að hætta öllum verkefnum í Rússlandi, þar á meðal stóru gasframleiðsluverkefni. Þá ætla norska olíufélagið Equinor og bandaríska olíufélagið Exxon Mobil einnig að draga sig frá Rússlandi. Ákvörðun þess síðastnefnda setur áform um risavaxna gasframleiðslu á Sakhalin-eyju í mikið uppnám.

Þá mun rússneski fluggeirinn einnig finna verulega fyrir viðskiptaþvingunum. Erlendar flugvélaleigur þurfa að endurheimta mörg hundruð flugvélar sem þær leigja út til Rússlands innan 30 daga. Ríkisflugfélagið Aeroflot leigir um helming flota síns frá slíkum leigum og mun hann því dragast verulega saman vegna aðgerðanna.

„Nú þegar vestrænar flugvélaleigur kalla til baka flugvélar í rekstri rússneskra flugfélaga mun fluggeirinn í Rússlandi vera á svipuðum stalli og í NorðurKóreu og Íran - og svipaður þeim sem hann var á tímum Sovétríkjanna," skrifaði Rob Stallard hjá Vertical Research Partners.

Viðskiptaþvinganirnar ná einnig til varahluta, en Boeing, Airbus og Rolls Royce ætla öll að hætta sölu varahluta til Rússlands auk þess sem lokað verður á viðhald á flugvélum Aeroflot í Þýskalandi. Sá helmingur flotans sem verður eftir gæti því orðið ónothæfur á nokkrum mánuðum auk þess sem lokað hefur verið á flug rússneskra flugvéla yfir lofthelgi fjölda Evrópuríkja, Kanada og Bandaríkjanna.

Ýmsir stofnanafjárfestar hafa einnig lýst yfir áformum sínum um að selja allar eignir sínar í Rússlandi og enn fleiri hafa lokað á öll frekari kaup á rússneskum eignum. Norski olíusjóðurinn, sá stærsti í heimi með yfir 1,3 billjónir Bandaríkjadala í stýringu, er leiðandi á meðal stofnanafjárfesta sem ætla að yfirgefa rússneska fjármálamarkaði, en fjöldi lífeyrissjóða víða um heim hyggst gera slíkt hið sama. Það gæti þó reynst fjárfestum þrautin þyngri að flytja fjármuni sína frá Rússlandi vegna aðgerða stjórnvalda og seðlabankans til að koma í veg fyrir slík viðskipti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .