Greiningardeild Arion banka rýndi í niðurbrot á helstu liðum vísitölu neysluverðs, en eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um fyrr í dag er verðbólga 1,9%.Þetta kemur fram greiningu Greiningardeildar Arion banka.

Í greiningu Arion banka er bent á að liðurinn póstur og sími lækkaði enn og aftur í mánuðinum og hafði það 0,08% áhrif á vísitöluna, þrátt fyrir að verð á póstþjónustu hafi hækkað um 9%, þar sem að símaþjónusta hélt áfram að lækka.

„Gagnamagnsnotkun fimmfaldaðist milli fyrri hluta áranna 2014 og 2016 og líklegt að hún sé enn að aukast. Þar sem þessi liður mælir einingaverð gagnamagns hefur hann lækkað talsvert. Skv. okkar áætlun væri verðbólga nú yfir verðbólgumarkmiði ef þessi liður hefði þróast í takt við annað verðlag. Þannig má segja að æði Íslendinga fyrir Snapchat, Instagram, Youtube og öðrum miðlum hafi haldið aftur af verðbólgu,“ er tekið fram í greiningunni.

Í verðbólguþróun Arion banka fyrir næstu mánuði er gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í mars, og að útsöluáhrif gangi til baka sem og að húsnæðisverð og flugfargjöld hækka. Bankinn spáir jafnframt að í apríl haldist hún óbreytt, en að hún lækki í maí.