Fjölbreytt úthlutun til ólíkra fjárfestahópa af ólíkum stærðum getur skipt miklu máli fyrir verðmyndun í tilboðssöluferli eins og því sem haldið var fyrir 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í þarsíðustu viku, bæði í söluferlinu sjálfu og eftir að því lýkur. Þetta segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins sem að útboðinu komu.

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið við framkvæmd útboðsins er að þrátt fyrir ríflega umframeftirspurn á því verði sem selt var á hafi nokkur fjöldi einkafjárfesta fengið lágum upphæðum úthlutað, sem fullyrt er að hvorki hafi skipt nokkru máli fyrir dreifingu eignarhalds – enda hluthafar þegar á annan tug þúsunda – né til að ná að selja það magn sem lagt var upp með.

Lífeyrissjóðirnir óvirkir eigendur
Kaup þriggja innherja í Íslandsbanka upp á samanlagt tæpar 100 milljónir króna komust í hámæli eftir að tilkynningar um viðskipti þeirra sem innherja bárust Kauphöllinni daginn eftir útboðið. Í gær birti fjármálaráðuneytið svo tæmandi lista yfir alla sem keyptu bréf í söluferlinu, þar með talið þá 140 einkafjárfesta sem fengu alls ríflega 30% hlutarins. Lægsta einstaka úthlutunin hljóðar upp á 9.615 bréf fyrir rúma 1,1 milljón króna.

Viðmælendur benda á móti á að endanleg samsetning tilboðsbókar og úthlutun geti haft mjög mikil áhrif á verðþróun í kjölfar sölunnar, enda hafi viðskipti með bréfin þetta eina kvöld numið meira en ársveltu á markaði.

Mikið hafi verið rætt um mikilvægi langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði, verðbréfasjóði og eignastýringu, en vilji þeirra til að eiga sinn hlut til lengri tíma haldist óhjákvæmilega í hendur við skilvirkni verðmyndunar.

Að úthluta aðeins til lífeyrissjóða hefði að þeirra mati haft slæm áhrif á markaðinn með bréfin í kjölfarið. Sjóðirnir séu afar óvirkir hluthafar, og svokallað flot bréfanna – það magn bréfa sem gengur kaupum og sölum í virkum viðskiptum á hverjum tíma – hefði því orðið mun minna en ella.

Því sé venjan sú að úthluta einhverju til allra fjárfestahópa til að tryggja sem besta verðmyndun. Af þeim ástæðum fari úthlutunin jafnan þannig fram að tekin er ákvörðun um hversu stór hluti útboðsins fari til hvers fjárfestahóps, og hvert tilboð innan hvers hóps sé svo skert um sama hlutfall, þó á því geti verið undantekningar.

Önnur ástæða til að hleypa smærri aðilum að borðinu sé bætt verðmyndun og hugsanlega hærra verð í söluferlinu sjálfu. Þótt fáir stórir aðilar geti verið þess megnugir og viljugir að kaupa alla þá hluti sem verið er að selja, verði fjöldi tilboða eðli máls samkvæmt mun lægri ef lagt er upp með slíka úthlutun frá upphafi og jafnvel sett ríflegt lágmark á tilboð. Þannig væri þeim aðilum gefið umtalsvert vald yfir endanlegu verði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .