Tveir nýir flokkar ríkisskuldabréfa – óverðtryggð til 20 ára og verðtryggð til 15 ára – munu bætast við á fyrsta fjórðungi komandi árs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lánamálum ríkisins .

Fyrir eru aðeins tveir verðtryggðir flokkar, en fimm óverðtryggðir, þó flestir þeirra séu heldur stuttir. Lengstu verðtryggðu ríkisbréfin eru til júlí 2030 í dag, en óverðtryggðu til janúar 2031.

Lánamál hyggjast selja ríkisbréf í markflokkum fyrir 40-60 milljarða króna á fjórðungnum, og 160 milljarða alls á árinu. Auk nýju flokkanna verða þeir gömlu stækkaðir. Útgáfa umfram gjalddaga verður samkvæmt ársáætlun 65 milljarðar, samanborið við 52 milljarða á árinu sem er að líða, þótt heildarútgáfa verði lægri sem nemur 20 milljörðum.

Til viðbótar við skuldabréfaútgáfuna verður fjárþörf ríkissjóðs mætt með erlendri útgáfu eða hagnýtingu erlendra innstæðna hjá Seðlabankanum. Staða viðskiptareiknings ríkissjóðs hjá bankanum nam 73 milljörðum króna í lok nóvember, en ríkissjóður á ennfremur gjaldeyri að jafnvirði 306 milljarða í innstæðum, sem er 92 milljarða aukning á árinu.