Gengi hlutabréfa bankarisans Goldman Sachs hækkaði í gær um 5,4% og nam 285,55 Bandaríkjadölum við lokun markaða, sem er hæsta gengi bréfanna frá upphafi.

Hlutabréfaverð Goldman Sachs hefur hækkað um yfir 19% undanfarinn mánuð, umtalsvert meira en bréf nokkurs annars stóru bankanna vestanhafs. Fram til þessa hafði gengi bréfa bankans haldist nokkuð stöðugt um árabil, en það hefur þótt sérstakt áhyggjuefni fyrir David Solomon, bankastjóra Goldman.

Í frétt WSJ frá því í gær er því haldið fram að hækkunin undanfarið endurspegli hve mikið bankinn hafi hagnast á fjárhagslegum óstöðugleika liðins árs.

Ólíkt samkeppnisaðilum á borð við JPMorgan og Bank of America er viðskiptabankaarmur Goldman Sachs ekki stór í samanburði við aðrar viðskiptaeiningar. Þannig naut bankinn ekki sömu hækkana og samkeppnisaðilarnir árið 2019 þegar viðskiptabankarnir blómstruðu.

Í faraldrinum hefur róður viðskiptabanka aftur á móti þyngst á sama tíma og þungavigtarsvið Goldman Sachs, fjárfestingabankastarfsemi og markaðsviðskipti, hafa verið að gefa vel.

Þá hefur bankinn einnig náð milljarðasátt við dómsmálayfirvöld sem loks hefur fært áralanga rannsókn yfirvalda á störfum bankans fyrir hinn spillta malasíska sjóð, 1MDB, til lykta.