Það var tiltölulega lítið um að vera á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag en alls nam veltan á aðalmarkaðnum 2,1 milljarði króna. Eftirtektarverðast var þó að hlutabréfaverð Haga hækkaði um 3,8% í 223 milljóna viðskiptum og er nú komið í 82 krónur á hlut. Gengi Haga hefur hækkað um 21,5% í ár og hefur aldrei verið hærra.

Gengi Íslandsbanka lækkaði um hálft prósent í dag og stóð í 125 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Hlutabréfaverð bankans hefur nú fallið um 4% frá því að það náði sínu hæsta stigi frá skráningu í 130,2 krónum þann 4. apríl síðastliðinn. Hlutabréf Arion banka féllu einnig um 0,6% í dag.

Gengi Icelandair féll um hálft prósent í 309 milljóna veltu og er nú komið í 1,95 krónur. Hlutabréf Play, sem eru skráð á First North-markaðnum, lækkuðu um 0,4% í 79 milljóna veltu og stendur nú í 24,7 krónum á hlut.

Nova tilkynnti í dag að félagið væri að undirbúa skráningu á almarkað Kauphallarinnar og stefnt verður að því að fara með félagið á markað á fyrri helmingi þessa árs. Í tilkynningu Nova kom einnig fram að félagið hafi nýlega lokið hlutafjáraukningu. Nýir hluthafar, þar á meðal sjóðir í stýringu hjá Stefni, Íslandssjóðum og Landsbréfum, eignuðust 36% hlut í Nova.