Gengi bréfa Íslandsbanka lækkaði um 0,32% í viðskiptum dagsins, en viðskipti með bréfin námu milljarði króna. Gengið stendur nú í 125,6 krónum á hlut og hefur lækkað um tæp 3,5% síðastliðna viku.

Nokkuð lítil velta var á hlutabréfamarkaði í dag, eða 2,4 milljarðar króna. Þannig voru viðskipti með bréf Íslandsbanka um 40% af heildarveltu markaðarins.

Flugfélagið Icelandair leiddi lækkanir í dag. Gengi bréfa félagsins lækkaði um 2% í 80 milljóna viðskiptum og stendur gengið nú í 1,96 krónum á hlut. Eimskip lækkaði auk þess um tæp 1,8% í 80 milljón króna viðskiptum. Kvika banki lækkaði um 1,3% í 40 milljón króna viðskiptum og SKEL fjárfestingarfélag um rúmt prósent í 36 milljóna viðskiptum.

OMXI10 úrvalsvísitalan lækkaði um 0,63% í viðskiptum dagsins. Hún stendur í rétt rúmlega 3.100 stigum og hefur lækkað um tæp 9% frá áramótum.

Einungis tvö félög á aðalmarkaði hækkuðu í viðskiptum dagsins. Það er fjarskiptafélagið Sýn, sem hækkaði um 2,65%, og Origo sem hækkaði um rúmt prósent.

Á First North hækkaði gengi Sláturfélags Suðurlands um rúm 20% í óverulegum viðskiptum. Flugfélagið Play hækkaði einnig um 0,8% í 80 milljón króna viðskiptum. Solid Clouds lækkaði um rúm 10% í óverulegum viðskiptum.