Úrskurðarnefnd um upplýsingamál (ÚNU) hefur öðru sinni gert fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) afturreka vegna afstöðu þess til afhendingar á fundargerðum stjórnar Lindarhvols ehf. til Viðskiptablaðsins.

Beiðni var send FJR í september í fyrra en aðgangi hafnað þar sem það yrði of tímafrekt fyrir ráðuneytið. ÚNU felldi þá ákvörðun úr gildi í janúar og vísaði málinu aftur til FJR. Ráðuneytið neitaði á ný að afhenda gögnin, nú með vísan til þess að þau væru háð sérstakri þagnarskyldu á grundvelli laga um gjaldeyrismál, laga um Seðlabanka Íslands og laga um fjármálafyrirtæki.

ÚNU féllst ekki á þá túlkun FJR að téð ákvæði hefðu að geyma sérgreindar þagnarskyldureglur sem næðu til starfa stjórnar Lindarhvols. Í úrskurði ÚNU sagði enn fremur að hugsanlegt væri að fundargerðirnar hefðu að geyma upplýsingar um fjárhags- og einkamálefni sem leynt ættu að fara samkvæmt upplýsingalögum. Ekkert mat hefði hins vegar verið lagt á það af hálfu ráðuneytisins heldur synjað um aðgang að fundargerðunum í heild.

Ákvörðun FJR var því felld úr gildi, málinu heimvísað til ráðuneytisins og lagt fyrir það að meta hvaða upplýsingar úr fundargerðunum bæri að afmá og hverjar ekki