Gildi lífeyrissjóður ætlar að greiða atkvæði gegn tillögu um bætt starfskjör stjórnenda hjá Icelandair á ársfundi félagsins á morgun. Sjóðurinn telur kjarabæturnar of umfangsmiklar, en þetta kemur fram í svari Gildis við fyrirspurn Túrista .

Gildi lífeyrissjóður er fimmti stærsti hluthafinn í Icelandair. Sjóðurinn er með 3,19% hlut í flugfélaginu, eða tæplega 1,15 milljarða hluta.

Sjá einnig: Leggja til bónuskerfi hjá Icelandair

Stjórn Icelandair lagði til að sett yrði á fót hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn flugfélagsins sem og kaupréttarkerfi. Fyrirhugað er að gefa út allt að 250 milljón hluti í ár og 900 milljón hluti næstu þrjú ár fyrir kaupréttarkerfið. Markaðsvirði hlutanna nemur rúmlega 2 milljörðum króna.

Hvatakerfið felur annars vegar í sér bónusgreiðslur sem geta numið allt að 25% af árslaunum lykilstarfsmanna. Þá verður þeim starfsmönnum boðin kauprétti að hlutum í félaginu sem miðast við lokagengi á þeim degi sem kaupréttirnir verða veittir að viðbættum 3% árlegum vöxtum.