Meirihluti þeirra landsmanna sem afstöðu taka í nýjum þjóðarpúlsi Gallup eru á móti Hálendisþjóðgarði í þeirri mynd sem umhverfisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi, en samt sem áður er meirihluti fyrir því að hafa þjóðgarð á hálendinu.

Þeir sem eru almennt andvígir því að hálendið verði gert að þjóðgarði eru líklegri til að telja sig þekkja frumvarp umhverfisráðherra vel, en þeir sem eru almennt fylgjandi því. Þeir sem telja sig hafa þekkingu á frumvarpinu eru mun líklegri til að taka afstöðu til frumvarpsins, þá bæði fylgjandi sem og á móti því, en á hinn bóginn er menntaðra fólk líklegra til að styðja frumvarpið.

Framsóknarfólk eru líklegast til að vera á móti því yfir höfuð að gera hálendið að þjóðgarði, næst koma stuðningsmenn Miðflokks og í þriðja sæti stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, en Miðflokksstuðningsfólk er mest á móti frumvarpinu eins og það er nú.

Jafnframt er landsbyggðarfólk líklegra að vera á móti en höfuðborgarbúar, eldra fólk frekar en yngra, sem og karlar frekar en konur, en fleiri karlar telja sig einnig hafa kynnt sér frumvarpið sem og fleira eldra fólk.

Tóku niðrandi orð Steingríms upp sem slagorð

Um 44% aðspurðra eru frekar og upp í alfarið á móti nýjum Hálendisþjóðgarði, meðan ríflega þrír af hverjum tíu eru fylgjandi frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember síðastliðnum. Alfarið andvígir eru tvöfalt fleiri en alfarið hlynntir, eða 20% á móti 10%.

Rúmlega 26% segjast hvorki fylgjandi né andvíg að því er fram kemur í nýjum Þjóðarpúls Gallup um málið sem vakið hefur nokkra athygli þar sem andstæðingar hafa merkt prófíl myndir sínar á facebook með textanum „Örlítill grenjandi minnihluti“.

Þar hafa þeir vísað í orð Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis og stofnanda og fyrrum formanns VG, um andstæðinga garðsins, en það er flokkur hans sem stendur að baki Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra. Stuðningsmenn hafa einfaldlega sett í prófíl að þeir styðji Hálendisþjóðgarð.

Einungis 30% segjast hafa kynnt sér frumvarpið

Tæplega 29% telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð en nær 43% litla. Hátt í 29% segjast hvorki hafa mikla né litla þekkingu á því.

Þeir sem eru almennt andvígir því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði eru líklegri til að telja sig þekkja frumvarp umhverfisráðherra vel en þeir sem eru almennt fylgjandi því að hálendið verði gert að þjóðgarði.

Ríflega 45% eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði burtséð frá frumvarpi umhverfisráðherra, sem er hærra hlutfall en er fylgjandi frumvarpi hans.

Rúmlega 34% eru andvíg því að hálendið verði gert að þjóðgarði og rösklega einn af hverjum fimm segist hvorki fylgjandi né andvígur því. Munur er á viðhorfi fólks eftir aldri og höfuðborgarbúar eru talsvert líklegri en íbúar landsbyggðarinnar til að vera fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði.

Konur eru frekar fylgjandi frumvarpinu en karlar. Einnig er munur eftir aldri, en eldra fólk er að jafnaði frekar andvígt frumvarpinu en yngra fólk. Karlar telja sig jafnframt frekar hafa mikla þekkingu á frumvarpinu en konur.

Munur er eftir aldri en fólk yfir sextugu er líklegast til að segjast hafa mikla þekkingu á frumvarpinu. Íbúar landsbyggðarinnar segjast frekar en höfuðborgarbúar hafa mikla þekkingu á því.

Miðflokkur, Framsókn og Sjálfstæðismenn mest á móti

Mikill munur er á metinni þekkingu á frumvarpinu eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru líklegastir til að telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu, en af þeim sem kysu eru þeir sem kysu Viðreisn líklegastir til að segjast hafa litla þekkingu á því.

Eins og áður segir er fólk líklegra til að vera fylgjandi frumvarpinu um Hálendisþjóðgarð eftir því sem það hefur meiri menntun, og munur mælist eftir fjölskyldutekjum og því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis nú.

Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði, þeir sem kysu Miðflokkinn eru næstlíklegastir til þess og þá þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem kysu Vinstri græn, Pírata, Samfylkinguna eða Viðreisn eru aftur á móti líklegastir til að vera fylgjandi því.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en íbúar landsbyggðarinnar. Fólk er einnig líklegra til að vera fylgjandi frumvarpinu eftir því sem það hefur meiri menntun að baki.

Mjög mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það kysi ef kosið til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir frumvarpinu, þeir sem kysu Framsóknarflokkinn næstlíklegastir og þá þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn.

Þeir sem kysu Vinstri græn eða Samfylkinguna eru aftur á móti líklegastir til að vera hlynntir frumvarpinu. Þeir sem telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu eru bæði líklegri til að vera fylgjandi og andvígir því en þeir sem telja sig hafa litla þekkingu á því.

Loks eru þeir sem eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en aðrir eins og kannski gefur að skilja.