„Sjálfsagt væri þægilegra fyrir fákeppnismógúla landsins að þessi bankaráðsformaður segði sem minnst eða talaði kannski bara einu sinni á ári um ársreikning bankans,“ skrifar Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, á Facebook-síðu sína í dag. Færslan er svar við gagnrýni framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, á ummæli Gylfa um að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda á samkeppnislögum væru „blautur draumur fákeppnismógúla“.

Sagði Halldór Benjamín að ummælin ekki sæmandi formanni bankaráðs Seðlabankans, en Gylfi gefur ekki mikið fyrir þau rök.

„Framkvæmdastjóranum til hugarhægðar skal þó tekið fram að hér talaði formaðurinn frekar í krafti þess að hafa verið á árum áður formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins og ráðherra samkeppnismála og hafa skrifað um þau mál sem háskólakennari og numið þau fræði sem háskólanemi,“ svarar Gylfi og bætir við.

„Hefur formaðurinn því ágæta þekkingu á samkeppnismálum, m.a. skilning á draumförum mógúla og martröðum neytenda. En formaðurinn bíður jafnspenntur eftir þessum skýringum sem von virðist á og framkvæmdastjórinn,“ skrifar Gylfi í lok Facebook-færslunnar.