Vinnslustöð í Vestmannaeyjum er metin á um 28 milljarða króna miðað við verðmat á hlut Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja í félaginu í nýbirtum ársreikningi lífeyrissjóðsins . Lífeyrissjóðurinn á 5,87% hlut í Vinnslustöðinni sem það metur á 1,65 milljarða króna en matið nam 1,28 milljörðum í árslok 2020 og hækkar því um tæp 29% á milli ára.

Í ársreikningi lífeyrissjóðsins kemur fram að gangvirðisbreyting skýri 365 milljónir af hækkuninni á virði Vinnslustöðvarinnar og greiddur arður 42 milljónir króna.

Vinnslustöðin er út frá því í heild metið á um 28 milljarða króna en var metin á um 21,8 milljarða króna í árslok 2020.

Vinnslustöðin eignaðist útgerðafélagið Huginn ehf . að fullu á síðasta ári en átti fyrir 48% hlut í félaginu. Þá keypti Vinnslustöðin 75% hlut í fiskvinnslufyrirtækinu Hólmadranga í Hafnarfirði á árinu.