Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ekki tekið afstöðu til mögulegrar rannsóknar vegna ábendinga um mögulega undirverðlagningu Íslandspósts (ÍSP). Lagaumhverfið sé flókið og óskýrt og brýnt að bæta úr því. Þetta kemur fram í umsögn eftirlitsins við frumvarp til breytinga á skipan eftirlits með póstmarkaði.

Fjallað hefur verið um stöðuna á póstmarkaði með ítarlegum hætti jafnt á síðum Viðskiptablaðsins og vef þess. Fyrir rúmu ári tóku gildi ný lög um efnið þar sem einkaréttur póstsins til dreifingar bréfa var afnuminn. Félagið var í kjölfarið útnefnt alþjónustuveitandi, það er á því hvílir skylda til að dreifa pökkum og bréfum á viðráðanlegu verði í hvert einasta heimilisfang landsins.

Við meðferð frumvarpsins gerði umhverfis- og samgöngunefnd þá breytingu á texta laganna að verð um alþjónustu skyldi vera hið sama um land allt. Brást ÍSP við með því að lækka gjaldskrá sína niður á verð höfuðborgarsvæðisins en afleiðing þess hefur meðal annars verið sú að fjöldi pakka í kerfum annarra flutningafyrirtækja hefur snarminnkað með tilheyrandi tekjutapi. Tekjutapið sem leiðir af breytingunni fær Pósturinn greidda með framlagi úr ríkissjóði.

Báðir kostir mögulegt lagabrot

Í umsögn SKE kemur fram að Pósturinn hefði haft tvo kosti. Annars vegar þá leið sem farin var, að lækka verðið á landinu öllu, en af því leiði að önnur fyrirtæki geti illa keppt við verðin sem niðurgreidd eru af ríkinu. Verð á landsbyggðinni gætu því verið undirverðlögð og slíkt falið í sér brot gegn samkeppnislögum.

Hinn kosturinn hefði verið að hækka verð á höfuðborgarsvæðinu og miða við að dreifing á landsbyggðinni standi undir sér. Það þýddi á móti að ÍSP dytti út af markaði á höfuðborgarsvæðinu og skapaði ekki „samkeppnislegt aðhald gagnvart keppinautum. Það getur valdið viðskiptavinum og neytendum tjóni,“ segir í umsögninni. Kostnaði við dreifingu á landsbyggðinni væri velt af ríkissjóði og yfir á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þá gæti slíkt falið í sér yfirverðlagningu sem einnig sé ólögmæt samkvæmt samkeppnislögum sé fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu.

„Í öllu falli er vandséð hvernig það geti gengið upp að kveða á um eina og sömu gjaldskrá um allt land fyrir alþjónustu og jafnfram t að gjaldskrár skuli taka mið af raunkostnaði við þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði, nema átt sé við raunkostnað félagsins á landinu í heild við viðkomandi þjónustu án tillits til mismunandi afkomu á einstökum dreifingarleiðum. Allt að einu skapar þetta óvissu um framkvæmd verðlagningar,“ segir í umsögninni.

Í umsögninni segir að hagsmunasamtök og samkeppnisaðilar ÍSP hafa „vakið athygli“ SKE, það er erindin hafa sennilega ekki uppfyllt skilyrði stofnunarinnar til að teljast kvörtun, á mögulegri undirverðlagningu ÍSP og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að meðal annars hafi borist erindi frá Eimskipum. SKE hafi hins vegar ekki tekið afstöðu til þess hvort hefja skuli rannsókn eður ei.

Brýnt að breyta eða skýra lögin

Árið 2017 undirritaði ÍSP sátt við SKE um aðgerðir til að bæta samkeppnisumhverfi á póstmarkaði. Félaginu var ekki gert að greiða sekt, meðal annars sökum þess að skilin milli samkeppnis- og einkaréttarrekstar voru of loðin að mati SKE. Meðferð þess máls tók alls um átta ár. Unnið er að endurskoðun á sáttinni í tilefni þess að ný lög hafa tekið gildi á markaðnum.

„Með vísan til alls framangreinds telur SKE brýna þörf á að endurskoða ákvæði 17. gr. póstþjónustulaga [innskot blm. það er ákvæðið sem kveður á um „eitt land, eitt verð“] og skapa grundvöll fyrir heilbrigða samkeppni á markaðnum. Að mati SKE þarf að finna aðrar leiðir til að tryggja hagstæða verðlagningu á póstþjónustu í dreifðum byggðum, t.d. með vel útfærðri flutningsjöfnun. Sé það afstaða löggjafans að halda þessu fyrirkomulagi óbreyttu væri að lágmarki brýnt að löggjafinn veitti frekari leiðsögn um túlkun ákvæðisins og samspil við samkeppnislög,“ segir í umsögninni.

Samkvæmt frumvarpinu verður hluti eftirlitsins færður frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Byggðastofnunar. PFS hefur almennt sinnt „framvirku eftirliti“ með Póstinum á meðan SKE hefur að meginstefnu sinnt viðbragðseftirlit. Þessu tvíþætta eftirliti hefur meðal annars verið ætlað það hlutverk að stofnanirnar tvær geti veitt hvor annarri ákveðið aðhald þegar þær ganga ekki í takt. Í einhverjum tilfellum hefur það þó verið þannig að visst grátt svæði hefur verið milli þeirra þar sem ekki hefur legið ljóst fyrir hvor þeirra eigi að taka boltann.