Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hefur keypt hraðpróf fyrir samtals 380 milljónir króna án virðisaukaskatts (vsk) í faraldrinum. Þetta kemur fram í svari HH við fyrirspurnum Félags atvinnurekenda (FA) vegna kaupa á hraðprófum.

Heilsugæslan keypti 100 þúsund hraðpróf í maímánuði árið 2021 í kjölfar breyttrar stefnu heilbrigðisyfirvalda um notkun hraðprófa í stað PCR-prófa vegna brottfarar frá landinu. Kostuðu prófin 109 milljónir króna án vsk.

Því næst voru um 300 þúsund hraðpróf keypt í ágústmánuði þegar Delta-bylgjan hófst og smitum fjölgaði hratt. Þá höfðu heilbrigðisyfirvöld ákveðið að hefja notkun hraðprófa innanlands í sóttvarnarskyni. Prófin kostuðu um 112 milljónir króna án vsk.

Í nóvember voru lagðar inn nokkrar pantanir hraðprófa af hálfu HH, samtals 230 þúsund próf á 85 milljónir án vsk.

Í desember voru 40 þúsund próf keypt á rúmar 25 milljónir án vsk, vegna krafna stjórnvalda um framvísun neikvæðs hraðprófs fyrir þátttöku í fjölmennum menningarviðburðum. Ómíkron bylgjan hófst einnig í desember og í kjölfarið keypti HH 160 þúsund próf í byrjun janúar upp á rúmar 60 milljónir án vsk.