Heildarhagnaður Eikar fasteignafélags nam 2,2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi sem er 150% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 884 milljónir. Aukinn hagnaður skýrist að mestu leyti af matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru jákvæð um 2,9 milljarða samanborið við 881 milljón á fyrsta fjórðungi 2021.

„Rekstur félagsins gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 og var afkoman í takt við áætlanir stjórnenda félagsins,“ segir í afkomutilkynningu Eikar.

Félagið segir að almennt hafi verðbólga jákvæð áhrif á EBITDA-hagnað félagsins þar sem 98% af leigutekjum eru tengdar vísitölu neysluverðs eða vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. „Að teknu tilliti til verðbólgu eru horfur fyrir árið óbreyttar.“

Virðisútleiguhlutfall félagsins stóð í stað frá áramótum og var 94,2% í lok fyrsta ársfjórðungs. Leigutekjur jukust um 6,2% og námu nærri tveimur milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir jókst um 17% á milli ára og nam 1.475 milljónum.

Heildareignir félagsins námu 118,7 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs. Eigið fé var bókfært á 39,7 milljarða í lok mars og eiginfjárhlutfallið nam því 33,5%.

Fasteignir innan samstæðunnar eru yfir 110 talsins og telja tæplega 314 þúsund útleigufermetra í rúmlega 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400 en þeir stærstu eru eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Ríkiseignir, Landsbankinn, Sýn, Össur, Míla, Deloitte, Síminn og VÍS.