Hagnaður fjármálafyrirtækisins Gamma nam tæplega 626 milljónum árið 2017 og dróst saman um 26% frá fyrra ári að því er Vísir greinir frá. Mestu munaði um mikla aukningu á öðrum rekstrarkostnaði en hann nam 842 milljónum króna á árinu og jókst um 300 milljónir á milli ára. Samtals námu rekstrargjöld félagsins 1.398 milljónum á tímabilinu og hækkuðu um 43%.

Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri Gamma, lét af störfum fyrir félagið í síðasta mánuði en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá verða helstu áherslubreytingar félagsins við brotthvarf hans þær að draga aðeins úr umsvifum erlendis en sögn Valdimars Ármanns er kostnaðarsamt að vera með skrifstofur erlendis.

Tekjur félagsins jukust um 116 milljónir á milli ára en umsýslu- og árungurstengdar þóknanir námu 2.078 milljónum króna á árinu.

Heildareignir Gamma í árslok voru 3.236 milljónir og hækkuðu um rúmlega 740 milljónir á árinu. Aukning kemur að mestu til vegna hækkunar á langtímakröfum á fagfjárfestasjóði jukust um 877 milljónir á milli ára. Þær kröfur eru komnar til vegna ákvæða um árangurstengda þóknun félagsins og ráðast af ávöxtun sjóðanna á fimm ára tímabili. Eigið fé félagsins nam 2.054 milljónum í árslok og eiginfjárhlutfallið var 47%. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna rekstrarársins 2017.