Hagnaður Hótel Borgarness hf. nam 1,4 milljónum króna í fyrra, samanborið við 9,3 milljónir árið áður. Arðsemi eiginfjár var 1,1%. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur námu 291 milljón og jukust um 2,6% milli ára, en rekstrargjöld hækkuðu um 8%, aðallega vegna fjórðungshækkunar húsnæðiskostnaðar.

Eignir námu 235 milljónum um áramótin og drógust saman um tæp 7%, en skuldir lækkuðu um 14% og námu 117 milljónum. Eigið fé nam því 118 milljónum og hækkaði lítillega milli ára, og eiginfjárhlutfall var rétt um helmingur og hækkaði um 4 prósentustig.

Launagreiðslur námu 100 milljónum króna og lækkuðu um tæp 5%, og ársverk voru 18. Meðallaun voru því 463 þúsund krónur á mánuði.