Rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu 7,6 milljörðum í fyrra og hækkaði um tæpan fimmtung milli ára. Matsbreyting nam tæpum 7 milljörðum samanborið við 1,5 milljarð árið áður, og endanlegur hagnaður 6,2 milljörðum, sem er fjórföldun milli ára. Arðsemi eigin fjár nam 11,6%.

Í ársreikningi félagsins er afkoman sögð umfram áætlanir. Eftirspurn eftir húsnæði félagsins hafi verið mikil. Leigutekjur hækkuðu um 13% og námu 10,4 milljörðum, sem var bróðurpartur rekstrartekna, og á þessu ári er gert ráð fyrir um 11 milljörðum í leigutekjur og tæpum 8 milljörðum í rekstrarhagnað.

Rekstrarkostnaður nam 3,4 milljörðum og jókst lítillega milli ára. Handbært fé var 3 milljarðar í lok síðasta árs, auk þess sem félagið hafði aðgang að 4,7 milljarða króna lánalínu.

Hrein fjármagnsgjöld námu 7 milljörðum og jukust um tæp 10% milli ára. Meðalvextir óverðtryggðra lána voru 3,94% í lok árs og hækkuðu um 0,13 prósentustig á árinu, en vextir verðtryggðra lána lækkuðu úr 3,4% í 2,82%.

Félagið sótti 31 milljarðs lánsfjármagn hjá lánastofnunum og með skuldabréfaútgáfu á árinu, og greiddi meðal annars upp óhagstæðari lán fyrir 25 milljarða. Skuldabréfaútgáfan nam 13,5 milljörðum og voru rétt tæpir tveir þriðju þess græn skuldabréf.