Alþingi á ekki að láta hagsmuni verslunareigenda og hins kapitalíska markaðshagkerfis ganga framar hagsmunum barna, aldraðra og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þetta kom fram í máli Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmanns Vinstri-grænna undir umræðum um áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar.

„En verslunarkeðjurnar stóru þær pressa á, og því miður þá verður ekki annað sé en að Sjálfstæðisflokkurinn hlýddi kalli þeirra. Vegna þess að við erum að tala um hagsmuni, þetta er hagsmunabarátta. Þetta er barátta þeirra sem eru að berjast í þágu lýðheilsu og stilla sér upp með læknasamtökunum, með hjúkrunarfræðingum, með Landlæknisembættinu, með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, með æskulýðssamtökum þessa lands, með þeim sem að beita sér í þágu vímuefnavarna," segir Ögmundur.

„Erum við í því liði? Eða erum við með verslunarkeðjunum sem að heimta að fá þetta inn í sínar hillur? Erum við þar? Ég er ekki þar og mér finnst það dapurlegt ef að þingið ætlar að fara að feta núna út á þessa braut," bætir hann við.

Lítil fórn að þurfa að fara í ríkisrekna vínbúð

Ögmundur tjáði sig einnig um hvort einstaklingar ættu að njóta réttar til að ákveða sjálfir af hverjum þeir keyptu áfengi. Hann sagði að frelsi einstaklingsins og hagsmuni samfélagsins mætti ekki skilja í sundur. „Saman eigum við að eiga eitt markmið. Það er að vilja byggja hér upp samfélag, gott samfélag, fyrir alla þegna þessa lands, fyrir okkur öll," segir Ögmundur.

„Við eigum að búa til umhverfi sem framkallar það besta í okkur og reyna að verja þá sem að hafa einhverja veikleika, til dæmis á þessu sviði. Það eru unglingarnir og viti menn, líka fullorðið fólk og aldrað fólk. Það eru mjög margir sem eru mjög veikir fyrir áfengi. Það er bara staðreynd. Þeir sem sinna vímuvörnum hafa hamrað á þessu," sagði hann jafnframt.

„Við eigum að sjálfsögðu að taka ábyrgð á sjálfum okkur og okkar samfélagi. Börnunum okkar og okkur öllum. Þeir sem hafa þessa veikleika gagnvart áfengi, það á að búa til umhverfi sem er hagstætt og gott fyrir þá, þó hinir þurfi að hafa fyrir því að labba fyrir hornið til að kaupa sér Johnny Walker, eða hvað það nú er. Það er nú engin hræðileg fórn, hefði ég haldið."

Mun auka neyslu áfengis líkt og afnám bjórbanns

Ögmundur sagði jafnframt að afnám einokunarsölu ríkisins á áfengi myndi augljóslega auka neyslu þess. „Staðreyndin er sú, að tölurnar sýna að áfengisneysla hefur verið að aukast og gerði það með tilkomu bjórsins, verulega."

„Það þarf ekki að beita öðru en heilbrigðri skynsemi til að svara því hvort það hafi einhver áhrif þegar maður hefur vín fyrir augunum, eða þessa vöru, alltaf þegar maður fer út í búð. Að það sé ekki munur á því annars vegar og hinu að hafa hana í sérverslun. Auðvitað," segir Ögmundur. „Við eigum að hlusta á það sem læknarnir eru að segja."