Hagstofa Íslands sendi frá sér tilkynningu áðan varðandi vangaveltur Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um að Hagstofan ætti að taka markaðsverð húsnæðis úr vísitölu neysluverðs. Velti ráðherra fyrir sér, í útvarpsviðtali á Bylgjunni, af hverju það væri ekki löngu búið að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, að því er kemur fram í grein á Vísi.

Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að vísitala neysluverðs sé mælikvarði á verðbreytingar útgjalda heimilanna í landinu sem Hagstofan reiknar út í samræmi við lög um vísitölu neysluverðs. „Hins vegar er fyrirkomulag verðtryggingar ekki á borði Hagstofunnar."

Bendir Hagstofan á að hún reikni margar vísitölur og þar á meðal vísitölu neysluverðs, bæði með og án húsnæðis. „Sé vilji til þess að breyta verðtryggingu fjárskuldbindinga er Alþingi í lófa lagið að breyta lögum um vexti og verðtryggingu óháð þeirri aðferðarfræði sem beitt er við að reikna vísitölu neysluverðs."

Í tilkynningunni er jafnframt bent á að fær erlendur sérfræðingur hafi komið til landsins á sínum tíma að vinna greiningu á þeirri aðferðarfræði sem Hagstofa Íslands notar við útreikning vísitölu neysluverðs. Samkvæmt niðurstöðu hennar, sem birt var 19. júní 2020, er aðferð Hagstofunnar í fullu samræmi við alþjóðlegar aðferðafræðilýsingar.