Samkvæmt árshlutauppgjöri HB Granda hf. hagnaðist félagið um 12,5 milljónir evra á fyrri helming þessa árs. Ef miðað er við 141,18 króna meðalgengi nam hagnaðurinn 1,8 milljörðum króna. Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaðurinn 6,9 milljónum evra.

Rekstrartekjur HB Granda námu 95,2 milljónum evra á fyrra hluti 2016, en 110,4 milljónum evra árið áður. EBITDA félagsins var 21 milljón evra sem jafngildir um 22% af rekstrartekjum. EBITDA félagsins var þó 31,3 milljónir í fyrra og því 28,3% af rekstrartekjum.

Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,7 milljónir evra en voru neikvæð um 0,02 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Áhrif hlutdeildarfélags voru jákvæð um 1,8 milljónir evra en voru neikvæð um 3 milljónir evra árið áður.

Handbært fé frá rekstri hefur dregist saman milli tímabila. Það nam 7,1 milljónum evra á tímabilinu, en nam 18,2 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 6,9 milljónum evra.

Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 0,3 milljónir evra og lækkaði handbært fé um 0,02 milljónir á tímabilinu.

Á fyrri helmingi ársins 2016 var afli skipa félagsins 25 þúsund tonn af botnfiski og 51 þúsund tonn af uppsjávarfiski.