Jewells Chambers var nýverið ráðin til auglýsingastofunnar PiparTBWA til að leiða stafræna stefnumótun fyrirtækisins. Jewells flutti frá Brooklyn til Íslands fyrir þremur árum síðan en að hennar sögn hafði hún aldrei búist við því að flytja út fyrir Bandaríkin.

„Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum síðan að ég ætti eftir að flytja til Íslands hefði ég hlegið að viðkomandi en þetta einhvern veginn æxlaðist svona,“ segir Jewells og bætir við að hún hafi gert samning við eiginmanninn að þau myndu flytja til Íslands en aðeins ef hún fyndi starf við hæfi hér á landi.

„Ég er menntaður heilbrigðisverkfræðingur en ég hef töluverða reynslu í stafrænni markaðssetningu. Þegar ég starfaði  á þessu sviði í New York þá öðlaðist ég ómetanlega reynslu. En það mikilvægasta sem ég lærði var að hræðast ekki mistök og þora að prófa nýja hluti. Það er svo mikilvægt að taka því ekki persónulega þó að eitthvað heppnist ekki í fyrstu atrennu,“ segir hún og bætir við að þótt hún sé ekki menntuð í markaðsfræðum þá hafi sú vísindalega nálgun sem hún lærði í verkfræðinni gagnast henni vel í störfum sínum.

Jewells kveðst hafa gaman af fjallgöngum, lengri göngutúrum og samverustunda með fjölskyldunni. „Þegar ég flutti hingað þá heillaðist ég strax af íslensku náttúrunni og ég reyni að nýta hvert tækifæri til að njóta hennar. Ég hef ekki enn fengið tækifæri til að klífa Hvannadalshnjúk en það er klárlega draumurinn,“ segir Jewells og bætir við að hún hafi þó farið í margar lengri gönguferðir þegar hún starfaði hjá Icelandic Mountain Guides (Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum).

„Mér er minnisstæð ferð þar sem við þurftum að ganga í níu daga samfleytt eða 151 kílómetra, það var virkilega erfitt en þegar við komumst loks á áfangastað var tilfinningin ólýsanleg.“ Jewells vill ekki aðeins upplifa allt sem Ísland hefur upp á að bjóða heldur vill hún jafnframt deila því með öðrum.

„Ég stofnaði nýverið hlaðvarp sem kallast „All Things Iceland“ þar ræði ég við Íslendinga um reynslu þeirra af því að búa hér á landi og ýmislegt fleira,“ Jewells Chambers er gift Gunnari Erni Ingólfssyni sálfræðingi og að sögn Jewells nýta þau hjónin hvert tækifæri til að fara í göngutúra í íslenskri náttúru.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .