Flugfélagið Northern Pacific Airways (NPA) stefnir á að byrja að bjóða ferðamönnum að ferðast á milli Norður-Ameríku og Asíu með viðdvöl í Alaska fylki seinna á árinu. Forsvarsmenn NPA fara ekki leynt með að viðskiptalíkan félagsins byggi á tengistöðvar (e. hub) líkani Icelandair og minnast á íslenska flugfélagið í nær öllum viðtölum. Forstjóri NPA gekk skrefi lengra í vikunni og sagðist ekkert skamma sín að viðurkenna að hann sé að „stela líkani Icelandair með húð og hári“.

„Icelandair hefur rutt leiðina fyrir okkur,“ er haft eftir Rob McKinney, forstjóra NPA, í frétt Airline Weekly .

Fram kemur að félagið hafi tryggt sér tvær Boeing 757-200 vélar sem voru áður í flota American Airlines. Þá er félagið einnig í viðræðum við Icelandair um að taka þrjár 757 þotur á leigu. Í frétt Bloomberg sem birtist í dag segir að flugfélagið hafi tryggt sér 757 vélarnar þrjár frá Loftleiðum, dótturfélagi Icelandair, fyrir fyrstu Asíuflugin.

Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félögin tvö hafi átt í viðræðum en engir samningar liggja fyrir, né heldur viljayfirlýsing.

„Þeir höfðu aldrei talað við okkur þegar við byrjuðum fyrst að sjá minnst á Icelandair í öllum viðtölum hjá þeim,“ segir Árni, spurður um samband félaganna.

Viðstaddur þegar fyrsta vélin var afhjúpuð

Þann 18. janúar síðastliðinn frumsýndi Northern Pacific fyrstu 757 vélina sína á viðburði á San Bernardino flugvellinum í Kaliforníu. Í frétt Airways Magazine segir að minnst hafi verið á Icelandair þó nokkrum sinnum á viðburðinum. Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða, var viðstaddur þegar vélin var afhjúpuð.

„Við höfum sett upp sambærilegt kerfi [og Northern Pacific] í Evrópu og á öðrum stöðum. Við nutum góðs um leið af viðdvölinni (e. stopover) í tengistöðinni,“ sagði Erlendur við Forbes á viðburðinum. Framangreindur McKinney tjáði miðlinum PAX að Erlendur hafi aðstoðað og miðlað þekkingu sinni til Northern Pacific.

Sjá einnig: Leika eftir líkani Icelandair

Northern Pacific stefnir á að hefja starfsemi á þriðja eða fjórða ársfjórðungi. Flugfélagið, sem verður með tengistöð í Anchorage, stærstu borg Alaska-fylkis, hyggst bjóða 10%-20% lægri fargjöld en í beinum flugum á sömu flugleiðum. McKinney segir að félagið eigi í viðræðum við Boeing og Airbus um að panta 757 MAX vélar eða A321 þotur sem munu þá taka við af 757 vélunum eftir nokkur ár.

Rafmyntir í stað vildarpunkta

NPA var stofnað í kringum gjaldþrot flugfélagsins Ravn Air Group, sem var stærsta flugfélag Alaska-fylkis. Float Alaksa, móðurfélag NPA, keypti hluta af Ravn Air árið 2020 fyrir 8 milljónir dala árið 2020.

Frumkvöðullinn Josh Jones er stærsti hluthafi og stjórnarformaður Float Alaska. Josh er mikill fylgjandi rafmynta og hefur fjárfest í Bitcoin í áraraðir. Jones virðist hafa sett svip sinn á flugfélagið sem hyggst bjóða upp á vildarkerfi byggðu á rafmyntum sem kallast FlyCoin.

FlyCoin á að verðlauna viðskiptavini fyrir hollustu með því að bjóða þeim hlunnindi í gegnum rafmyntir. Hægt verður að nýta FlyCoin myntirnar upp í fargjöld en einnig hafa verslanir á Ted Stevens Anchorage flugvellinum samþykkt að taka við rafmyntinni sem greiðslu.

Float Alaska hefur nýlega safnað 33 milljónum dala eða um 4,1 milljarði króna frá áhættufjárfestum vegna FlyCoin vildarkerfisins.