Hlutabréfaverð í Rússlandi hefur fallið mikið eftir að tilkynnt var um að 8 fyrirtækjum yrði meinað að eiga viðskipti í Bandaríkjadölum. Hlutabréfavísitalan fyrir burðugustu fyrirtækin í Rússlandi hefur fallið um 9,6% í dag að því er Financial Times greinir frá.

Viðskiptablaðið greindi frá því að álframleiðandinn Rusal væri eitt fyrirtækjanna á listanum en gengi bréfa þess lækkaði um rúmlega 50% í kauphöllinni í Hong Kong í dag. Rusal er í meirihlutaeigu rússneska auðjöfursins (e. oligarch) Oleg Deripaska. Annað félag sem Deripaska á stóran hlut í, Norilsk Nickel, hefur einnig lækkað um tæp 16% í dag.

Þá hafa hlutabréf bankans Sberbank einnig lækkað um tæp 17% en bankinn er stærsti lánveitandi Rusal en álframleiðandinn er afar skuldsettur.