Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu rauðir í morgun eftir miklar lækkanir á asíska markaðnum vegna ótta um áhrif Covid-samkomutakmarkana í Kína á aðfangakeðjur og heimshagkerfið, að því er BBC greinir frá.

Íslenska úrvalsvísitalan hefur fallið um 1,8% í morgun. Marel hefur lækkað um nærri 3% og er gengi félagsins nú komið í 700 krónur á hlut. Þegar fréttin er skrifuð hafa hlutabréf Eimskips lækkað um tæplega 2,6% og Kviku um 3,8% frá opnun Kauphallarinnar í morgun.

Lækkanir á íslenska markaðnum er í takt við þróun erlendis. Breska FTSE 100 vísitalan og hin evrópska Stoxx Europa 600 hafa fallið um 2% í morgun. Olíu- og námufyrirtæki hafa leitt lækkanir á breska hlutabréfamarkaðnum. Þá hefur SSE Composite vísitalan, sem inniheldur öll hlutabréf í Sjanghæ kauphöllinni, hefur lækkað um meira en 5% í morgun.

„Böl Covid heldur áfram en kínversk stjórnvöld haggast ekki þegar kemur að stefnu sinni er snýr að faraldrinum,“ hefur BBC eftir greinanda hjá breksa fjármálafyrirtækinu Hargreaves Landsdown. „Með fjölgandi smitum eru auknar áhyggjur af því að langvarandi útgöngubann muni bitna á vinnumarkaðnum og leiða til minni hagvaxtar,“ segir hún og bætir við að ástandið kunni einnig að leiða til frekari vandræða þegar kemur að flutningum og aðfangakeðjum.

Þá hefur hráolíuverð hefur lækkað um meira en 4% í morgun, m.a. vegna væntinga um minnkandi eftirspurn í kínverska hagkerfinu. Verð á framvirkum samningum á tunnu af Brent hráolíu er komið niður í 102 dali.

Einnig hafa markaðsaðilar áhyggjur af áhrifum mögulegs banns Evrópuríkja á innflutningi á olíu og jarðgasi frá Rússlandi. „Þýsk stjórnvöld sögðu í síðustu viku að tafarlaust bann á rússneska orku muni leiða til niðursveiflu í Þýskalandi. Ef það verður niðursveifla í Þýskalandi þá mun það hafa tilheyrandi áhrif á Evrópu og umheiminn,“ sagði sérfræðingur á gjaldeyrismarkaði sem Reuters ræddi við.