Fjöldi hluthafa Íslandsbanka voru um 15.900 talsins í lok síðasta árs. Þeim hefur nú fækkað um þriðjung frá því í júní síðastliðnum þegar 24 þúsund fjárfestar tóku þátt í hlutafjárútboði bankans fyrir skráningu í Kauphöllina. Þrátt fyrir þessa fækkun er Íslandsbanki enn með fjölmennasta hluthafahóp af skráðum félögum á Íslandi. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem var birtur í dag.

Líkt og þekkt er þá hækkaði hlutabréfaverð Íslandsbanka verulega í kjölfar skráningarinnar síðasta sumar og ákváðu þá margir að innleysa ávöxtun af fjárfestingu í bankanum. Greint var frá því að hluthöfum Íslandsbanka fækkaði úr 24 þúsund í 20 þúsund á rúmum þremur vikum eftir skráninguna.

Í uppgjöri Íslandsbanka fyrir þriðja ársfjórðung kemur fram að fjöldi hluthafa í lok september væru fyrir 17 þúsund talsins. Því er ljóst að þeim fækkaði um meira en eitt þúsund í viðbót á síðasta fjórðungi ársins.

Í ársuppgjörinu kemur fram að hlutur erlendra fjárfesta hafi verið um 8% í lok síðasta árs en erlendir aðilar fengu úthlutað um 10,5% hlut í útboðinu í sumar. Sjóðastýringarfyrirtækið RWC, einn af fjórum hornsteinsfjárfestum í hlutafjárútboðinu, hefur selt helming af 1,54% hlutnum sem hann fékk úthlutað og fór með 0,77% í árslok 2021.

Alls seldi íslenska ríkið 35% hlut í Íslandsbanka í útboðinu síðasta sumar. Fyrir þremur vikum síðan lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fái heimild til að selja alla eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka. Lagt er til að restin af eignarhlut ríkisins í bankanum verði seldur í nokkrum áföngum fyrir árslok 2023.