Skerðingarhlutfall hvers og eins bjóðanda í útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars réðist ásamt öðru af huglægu mati á þáttum á borð við fjárhagslegt bolmagn og viðskiptasögu, auk stærðar tilboðs í samanburði við aðra sambærilega fjárfesta. Meðal þess sem horft var til var reynsla af þátttöku bjóðanda í frumútboði á bankanum í fyrra, hafi hann tekið þátt þá.

Í minnisblaði Bankasýslunnar til fjárlaganefndar sem birt var í fyrrakvöld kemur fram að fjárfestar í sama flokki hafi þurft að sæta „svipaðri skerðingu að teknu tilliti til viðtekinna viðmiða, eins og fjárhæð og gæða áskriftar“. Hvert frávik þar frá þarf að rökstyðja sérstaklega, sem er liður í að gæta jafnræðis samkvæmt þeim lögum sem um söluna gilda.

Gæði tilboða ekki síður mikilvæg en magn
Þótt seljandi vilji auðvitað að boðið magn verði sem mest, skiptir traust tilboðsbókarinnar, eins og hann kemst að orði, ekki síður máli. „Það er alveg vitað að sumir leggja inn stærri pantanir en þeir geta staðið undir vegna þess að þeir eru að gera ráð fyrir hlutfallslegri skerðingu. Það voru mörg dæmi um þetta í frumútboðinu, að fjárfestar settu inn áskriftir sem voru langt umfram fjárfestingagetu, og við notuðum meðal annars þær upplýsingar við mat á tilboðsgjöfum núna.“

Aðspurður segir hann um einskonar millileið milli hlutfallslegrar skerðingar og lágmarksúthlutunar að ræða. Óeðlilega stór pöntun miðað við sambærilega fjárfesta geti því kallað á nánari skoðun og leiði alla jafna til meiri hlutfallslegrar skerðingar.

„Ef þú kemur með stærstu pöntunina og þú hefur fjárhagslegt bolmagn til að standa á bak við hana, þá færðu líklega stærstu úthlutunina í krónum talið innan þess flokks, þó hún verði það ekki hlutfallslega.“

Flettu upp ársreikningum og skoðuðu viðskiptasögu
Matið sjálft var á höndum söluráðgjafa en með hliðsjón af þeim áherslum sem Bankasýslan lagði upp með. Tiltölulega einfalt er að leggja slíkt mat á stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði eða tryggingafélög út frá opinberum upplýsingum, en málið getur vandast þegar að einkafjárfestum kemur.

„Þú skiptir tilboðunum upp eftir flokkum, og ef þú rekur augun í pöntun sem þér finnst tilefni til að kanna betur þá flettirðu kannski upp ársreikningi viðkomandi tilboðsgjafa og athugar hvort pöntunin sé í samræmi við fjárhagslegt bolmagn. Þetta er náttúrulega huglægt mat, það verður að viðurkennast eins og er, en er þó gert eftir viðurkenndum aðferðum.“

Meðal þess sem horft er til auk ársreikninga er viðskiptasaga, þar með talin þátttaka í frumútboðinu í fyrrasumar og hvort og hvenær viðkomandi seldi sína úthlutun.

„Það var einn fjárfestir í frumútboðinu sem gaf til kynna að hann yrði langtímafjárfestir, en seldi síðan strax. Hann sýndi sig ekki í útboðinu, en ég hefði ekki mælt með mikilli úthlutun til hans næst,“ segir Jón Gunnar, en sýnir því þó skilning að ýmsar ástæður geti verið fyrir ákvörðun um sölu. Meðal annars hafi verið innlausnir úr tilteknum fjárfestingasjóðum sem keyptu í frumútboðinu, sem hafi því ekki haft annað í stöðunni en að losa um hluta eignasafnsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .