Rússnesk yfirvöld hafa varað vestræn stórfyrirtæki sem eru með starfsemi í landinu við því að gagnrýna aðgerðir rússneskra stjórnvalda. Geri fyrirtæki það muni yfirvöld handtaka yfirmenn fyrirtækisins og að sama skapi hóta yfirvöld að frysta eignir fyrirtækja sem hafa í huga að hætta starfsemi í landinu. WSJ greinir frá.

Nokkur fjöldi fyrirtækja hefur frá því að rússnesk stjórnvöld hófu innrás inn í Úkraínu greint frá áformum um að leggja niður starfsemi í Rússlandi, a.m.k. tímabundið. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Coca-Cola, McDonald's, IBM og Procter & Gamble. Samkvæmt heimildum WSJ hefur forsvarsmönnum þessa fyrirtækja, auk fleiri, borist bréf og heimsóknir þar sem yfirvöld hóta fyrirtækjunum lögsóknum og frystingu eigna.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti í síðustu viku yfir stuðningi við lagafrumvarp sem gerði stjórnvöldum kleift að þjóðnýta eignir erlendra fyrirtækja sem hyggjast yfirgefa Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Ku þetta hafa orðið til þess að a.m.k. eitt félaganna ákvað að lágmarka samskipti við skrifstofu sína í Rússlandi, þar sem stjórnendur höfðu áhyggjur af því að yfirvöld myndu rannsaka skilaboð milli samstarfsmanna. Þá eru önnur félög sögð hafa flutt yfirmenn með aðsetur í Rússlandi úr landi.

Forsvarmenn stórfyrirtækjanna sem nefnd eru hér að ofan neituðu að tjá sig um málið, er WSJ fór þess á leit.