Verð á hráefni sem notað er í húsbyggingar hefur hækkað mikið vestanhafs í kjölfar mikilla fasteignaverðshækkana.

Timbur – einn stærsti kostnaðarliðurinn við að byggja hús – er nú ríflega tvöfalt dýrara en að jafnaði á þessum tíma árs. Hráolía, sem notuð er í hluti á borð við málningu, niðurföll, þakflísar og gólfefni, hefur hækkað um 80% síðan í október, og kopar, sem notaður er í lagnir, hefur hækkað um þriðjung frá því í haust.

Því til viðbótar hafa verið slegin verðmet á mörkuðum með granít, einangrun, steypu og múrsteina í ár.

Í frétt Wall Street Journal um málið eru uppkaup og bygging fasteigna til útleigu nefnd sérstaklega í tengslum við hækkanirnar, enda hafi markaðsvextir hríðlækkað vegna aðgerða seðlabankans í kjölfar heimsfaraldursins, og fjárfestar sæki nú á ný mið eftir ávöxtun.