Ítalskur bankastjóri í litlu fjallaþorpi hefur sloppið naumlega við fangelsisvist sem hann átti yfir höfði sér. Ástæða þess er sú að hann stal samtals um það bil einni milljón evra af vel stæðum viðskiptavinum bankans á sjö ára tímabili. Samið var um málið utan dóms og var hann dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar. Þar sem þetta var hans fyrsta brot og dómurinn var tiltölulega stuttur, sleppur bankastjórinn við það að sitja inni samkvæmt ítölskum lögum. BBC greinir frá .

Bankastjórinn stal smáum upphæðum í einu af reikning þeirra vel stæðu og lagði upphæðirnar inn á reikninga fólks sem er illa statt fjárhagslega og naut þar af leiðandi ekki lánstrausts. Gárungar hafa tekið upp á því að kalla bankastjórann „ítalska Hróa Hött" þar sem að hann stal af þeim ríku til þess að gefa þeim efnaminni.

Umræddur bankastjóri sem heitir Gilberto Baschiera segir að auk þess að varðveita fjármuni fólks, hafi hann talið það vera hlutverk bankans að hjálpa þeim sem minna mega sín.

Að sögn lögmanns Baschiera endaði ævintýrið ekki vel hjá nútíma Hróa Hetti og hefur hann misst húsið sitt og vinnuna.