Hrein ný fasteignalán bankakerfisins til heimila eru farin að dragast saman, og lífeyrissjóðirnir farnir að sækja á þar á ný eftir talsverða eftirgjöf í faraldrinum. Þess í stað beina bankarnir nú sjónum sínum í auknum mæli að fyrirtækjalánum , sem fjármagna sig nú í auknum mæli með beinni útgáfu skuldabréfa og fjármagni frá fagfjárfestasjóðum.

Eftir mörg ár af vaxandi hlutdeild lífeyrissjóða á fasteignalánamarkaði árin fyrir faraldurinn fóru bankarnir að taka yfir á ný þegar hann skall á, vextir lækkuðu og bankaskatturinn svokallaði – sem hafði veitt lífeyrissjóðunum nokkurt samkeppnisforskot – var lækkaður verulega. Lífeyrissjóðirnir gáfu eftir ekki aðeins markaðshlutdeild, heldur hreinar krónutölur.

Frá júní 2020 voru hrein ný útlán lífeyrissjóðanna til heimilanna neikvæð í hverjum einasta mánuði. Þar til í nóvember, þegar þau voru jákvæð um tæpa 1,5 milljarða króna. Andstæða þróun má greinilega merkja í útlánatölum bankanna.

Í maí 2020 námu hrein ný útlán innlánsstofnana yfir 20 milljörðum á einum mánuði í fyrsta sinn síðan seðlabankinn fór að halda utan um tölurnar árið 2013, og voru komin í 46 milljarða í október það ár. Í ágúst síðastliðnum fóru útlánin undir 20 milljarða aftur í fyrsta sinn, og héldust þar í október og nóvember, sem eru nýjustu tölur seðlabankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .