Kaupréttir hafa snúið aftur af krafti í Kauphöllina. Eins og Viðskiptablaðið greindi nýverið frá hefur tæplega helmingur félaga sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallarinnar , eða átta af tuttugu, á þessu ári og því síðasta greint frá áformum um að setja á fót kaupréttarkerfi eða annars konar bónuskerfi fyrir starfsfólk sitt. Í sumum tilfellum er um að ræða kaupréttar- eða bónuskerfi sem ná einungis til stjórnenda og lykilstarfsfólks, en ná í öðrum tilfellum til alls starfsfólksins.

Meðal félaga sem útlit er fyrir að taki upp slíkt kerfi er Síminn. Í tillögu sinni um upptöku kaupréttarkerfis benti stjórn Símans á að kaupréttir njóti sérstaks skattalegs hagræðis fyrir starfsmenn, þar sem allar tekjur vegna þeirra séu skattlagðar sem fjármagnstekjur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Kauprétti verður fyrst hægt að nýta er tólf mánuðir hafa liðið frá gerð kaupréttarsamnings og starfsmenn verða að eiga keypta hluti í tvö ár hið skemmsta, vilji þeir nýta skattalegar ívilnanir sem í áætluninni felast.

Eins og stjórn Símans bendir á njóta starfsmenn skattalegs hagræðis, þar sem allar tekjur vegna kauprétta eru skattlagðar sem fjármagnstekjur að tilteknum skilyrðum uppfylltum, enda er fjármagnstekjuskattur í lægra skattþrepi en tekjuskattur.

Samkvæmt skattalögum er meginreglan sú að ef kaupréttir eru veittir í tengslum við starf starfsfólks ber að skattleggja þá í tekjuskattsþrepi. Ef hver sem er getur fengið téða kauprétti og þeir eru veittir á markaðsverði eru þeir skattlagðir sem fjármagnstekjur.

Ein undanþága er þó frá þessari meginreglu sem háð er ströngum skilyrðum. Meðal annars þarf kauprétturinn að ná til allra starfsmanna, starfsmenn þurfa að halda réttinum og síðan bréfunum í ákveðinn tíma, rétturinn má ekki vera framseljanlegur og þá er hámark kaupanna 1,5 milljónir króna. Andvirði kauprétta hvers starfsmanns í Símanum er því engin tilviljun.  Hámarkið var 600 þúsund þar til um síðustu áramót er þakið var hækkað með lagabreytingu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .