Lagardère Travel Retail, sem er 60% í eigu franska fyrirtækisins LS Travel Retail, og 40% í eigu íslenskra aðila, rekur átta einingar í flugstöð Leifs Eiríkssonar, veitingastaði, kaffihús, bar og sælkeraverslun. Á sumrin eru starfsmenn yfir tvö hundruð talsins. Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri Lagardère Travel Retail ehf., segir velgengni fyrirtækisins byggja einkum á mikilli fjölgun ferðamanna á Íslandi undanfarin ár.

Fjölbreytni og hraði lykilatriði

„Þegar við unnum forvalið um veitingarekstur í flugstöðinni árið 2014 var lögð gríðarleg áhersla á það af hálfu okkar og flugstöðvarinnar að vera með fjölbreytta veitingastarfsemi, þannig að hún myndi falla að kröfum sem flestra viðskiptavina,“ segir Sigurður. „Lykillinn að góðum árangri er því víðtækt framboð á vörum og þjónustu og að fólk geti á fljótlegan hátt náð sér í mat og drykk.“

Sigurður Skagfjörð segir að síðasta rekstrarár hafi gengið með ágætum, en eins og mörg ferðaþjónustu fyrirtækja þekkja, sé ein stærsta áskorunin í rekstrinum að halda launakostnaði innan skynsamlegra marka.

„Við höfum opið allan sólarhringinn á sumrin og á veturna opnum við klukkan fjögur á næturnar, þannig að launkostnaður vegna óhefðbundins vinnutíma , er gríðarlega mikill. Við erum annars vegar að leita allra ráða til að halda kostnaðinum innan réttra marka og hins vegar að ná í starfsmenn á Suðurnesjum. Það er alvarlegt mál hversu illa gengur að ráða starfsfólk úr heimbyggð en eftirspurn eftir vinnuafli á svæðinu er mjög mikil. Hér nægir að nefna stóra og vaxandi atvinnurekendur eins og Bláa lónið, Isavia og innritun hjá flugfélögunum. Stór hluti starfsmanna koma því erlendis frá bæði allt árið og líka eingöngu yfir sumartímann. En að öðru leyti er staðan prýðileg, okkur hefur tekist að halda kostnaðarverði seldra vara í skefjum og erum sáttir að flestu leyti.“

Spurður um hvaða þýðingu það hafi fyrir Lagardère Travel Retail að komast á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi segir hann það ákaflega jákvæða hvatningu.

„Fyrirtækið er stórt á íslenskan mælikvarða og viðurkenning sem þessi hvetur okkur til að halda á lofti þeim ábyrgðarhlutum sem við verðum alltaf að hafa að leiðarljósi. Við erum t.d. mjög meðvitaðir um helstu þætti sem lúta að starfsmannamálum í nútímanum, hvort sem það er jafnlaunavottun, þjálfun, sterkt stjórnendateymi eða annað sambærilegt sem þarf að huga að til stuðnings við okkar starfsfólk. Grunngildin þurfa að vera í lagi og stærð okkar gerir okkur kleift að fjárfesta í þessum þáttum með bestri hugsanlegri útfærslu, sem ég held að skipti gríðarmiklu fyrir hag félagsins og velferð.“

Ýmis tækifæri til vaxtar

Sigurður Skagfjörð segir Frakkana hafa þann háttinn á að vinna náið með staðbundnum aðilum, fara ekki inn á nýja markaði án samstarfs við heimamenn og forðast miðstýringu.

„Fyrirtæki Lagardère Travel Retail starfa um allan heim og ekki einungis á flugstöðvum heldur einnig á öðrum samgöngumiðstöðvum og fjölsóttum ferðamannastöðum, við getum t.d. nefnt veitingasölu í Eiffel-turninum í París og Óperuhúsinu í Sidney, auk þess sem þeir eru með rekstur á hundruðum sjúkrahúsa í Frakklandi,“ segir Sigurður. „Við erum að skoða ýmis tækifæri til að vaxa á Íslandi og niðurstaða þeirrar athugunar kemur hugsanlega betur í ljós á þessu ári. Við stefnum á að helga okkur nýja markaði hérlendis og fara jafnvel til annarra landa á norðurhveli.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .