Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernir lýsir í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun atburðarrásinni sem leiddi til þess að ný 32 sæta Dornier skrúfuþota félagsins er nú undir formlegri kyrrsetningu ISAVIA.

„Við vorum árið 2016 í smá skuld við ISAVIA, en árið 2017 er opinbera fyrirtækið að gera breytingar á tölvukerfinu sínu og það koma engir reikningar frá þeim í að ég held tíu mánuði. Síðan fengum við alla súpuna yfir okkur í júlí 2018, sem var um svipað leiti og við fengjum nýju vélina inn. Hvað gerirðu í venjulegu heimilisbókhaldi ef þú ert ekki að fá símareikninginn inn til þín. Þú ert ekkert að færa hann inn til gjalda, sem var ákveðin yfirsjón hjá okkur, en mér finnst þeir bera ábyrgð líka,“ segir Hörður sem segir ýmislegt fleira skrýtið í kýrhausnum eins og hann orðar það.

„Við byggðum þetta hús sem við sitjum nú í, sem kostaði fyrir tveimur árum um 90 milljónir. Bankinn okkar aðstoðaði auðvitað við það og var það gert að ítrustu kröfum byggingaryfirvalda, eins og um fasteign sé að ræða, þó þetta séu gámaeiningar sem við fluttum inn. Síðan þegar kemur að því að við ætlum að fara að veðsetja húsið, þá kemur í ljós að formlega eigum við ekkert í húsinu.

Það er einhver átök um skipulagsmál hérna á Reykjavíkurflugvelli sem enginn virðist geta leyst úr, þannig að þegar á reyndi, þá er ríkið skráður eigandi að húsinu líkt og jörðin hér undir og enginn lóðaleigusamningur fæst. Á sama tíma og skuldin hleðst upp hjá ríkisfyrirtækinu Isavia, þá er húsið okkar má segja í gíslingu hjá ríkinu. Við erum búin að reyna að fá lögfræðinga til þess að finna út úr því hvernig hægt er að vinda ofan af þessu, því peningarnir okkar liggja í húsinu sem við byggðum hér í stað gamals hermannabragga sem var orðinn heilsuspillandi.“

Eiga húsið með réttu en tilbúinn að láta það

Hörður segist ekki sjá neina lausn á þessum vanda í bili. „Við eigum þessa eign með réttu, en við erum alveg tilbúin til að Isavia bara taki hana þannig að við værum laus allra mála en fengjum húsið á leigu. Þetta er leið sem við sjáum í stað þess að hafa vélina okkar, atvinnutækið, kyrrsetta á vellinum, vegna þess að ríkið er búið að eigna sér bygginguna okkar, og Isavia, sem er hinn vasinn á sömu brókinni, er að innheimta sitt.

Mér skilst reyndar að Isavia sjálft sé í nákvæmlega sömu málunum, hér við hliðina á okkur er stór flugturn byggður 1960 og eitthvað, hann er undir sama hatti, Isavia á ekkert í honum þó þeir reki hann. Ráðherra veit örugglega af þessu. Það sama gildir um stóru nýju flugstjórnarmiðstöðina hérna sem búið er að byggja við fyrir milljarða, að stórum hluta fyrir erlent fé alþjóða flugmálastofnunarinnar, Isavia á ekkert í þessu húsi, það stendur bara þarna á ríkisjörð og ríkið er skráður eigandi. Þetta er rosalega skrýtið mál,“ segir Hörður sem segir að ekki megi margir dagar til viðbótar líða án þess að þeir fái vélina aftur í hendur úr kyrrsetningunni.

„Við höfum þegar orðið fyrir verulegu tjóni. Þjálfunarflugstjórarnir okkar bíða bara úti í Austurríki, þeir voru að þjálfa okkar áhafnir hér en fóru heim í jólafrí og eru þar enn þá. Við erum því rétt að vona þetta geti verið leyst á næstu dögum, í góðu samstarfi með bankanum okkar, það hlýtur að gerast. En þetta er bara hluti af þeim gríðarlegu gjöldum sem ríkið leggur á flugið, því fyrir utan þjónustugjöldin er farþegaskattur, þá er yfirflugsgjald, sem er tiltölulega nýtt gjald hérna á Íslandi þar sem tekið er ákveðið gjald fyrir hvern kílómetra sem verið er að fljúga og síðan er lendingargjald, sem er að okkar mati töluvert hátt, en það fer eftir þyngd vélarinnar. Það miðast þó við að vélin sé fullhlaðin, og mesta leyfilega vigt á vélinni, en ekkert tillit er tekið til þess hvort þú sért með einn farþega um borð sem flogið er með á einhvern einn stað úti á landi, eða fullt um borð.

Svo er virðisaukaskattur af eldsneytinu fyrir innanlandsflug en ekki fyrir millilandaflug. Þess vegna er eldsneytið innanlands 24% dýrara að minnsta kosti heldur en í flugi á milli landa. En flugfélagið getur ekki útskattað virðisaukaskattinn, því það innheimtir engan virðisaukaskatt og á því ekki endurkröfurétt, enda enginn virðisaukaskattur af flugseðlum og einungis smávægilegur af frakt, þannig að þetta verður beinn skattur. Síðan leggst náttúrulega kolvetnisgjaldið eða hvað það heitir ofan á eldsneytið en þegar búið er að leggja öll gjöldin á kemur virðisaukaskatturinn ofan á allt saman.“

Hin hliðin á teningnum er svo að áætlunarflug félagsins er samkvæmt útboði ríkisins sem niðurgreiðir flugleiðirnar samkvæmt þjónustusamningum en Hörður segir ríkið fá það til baka og meira til.

„Hérna er tiltölulega stór hluti starfsmanna á háum launaskala, en ef þessi starfsemi væri ekki, þá fengi ríkið ekki tekjuskattinn og öll þau gjöld sem verða til vegna starfseminnar. Ef við tökum skattspor þessa fyrirtækis og skoðum það í samhengi við það sem er niðurgreitt af fluginu, þá skaffar fyrirtækið ríkinu alla þá peninga sem niðurgreiðslurnar kosta, rúmlega tvisvar sinnum. Það eru einhverjar rúmar 200 milljónir sem eru settar í niðurgreiðslurnar, en fyrirtækið býr til á fimmta hundrað milljónir í skatta fyrir hið opinbera.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem út kom í morgun, fimmtudaginn 24. janúar 2019. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .