Arðsemi eigin fjár er ein helsta leiðin sem notuð er til að meta hagnað banka og samanburð þeirra á milli. Arðsemi Arion banka var 14,7% á síðasta ári samanborið við 6,5% arðsemi árið áður, arðsemi Íslandsbanka var 12,3% samanborið við 3,7% árið áður og arðsemi Landsbankans var 10,8% samanborið við 4,3% árið áður.

Vegna mikillar óvissu í tengslum við heimsfaraldurinn færðu bankarnir niður lánasöfn sín um alls 26 milljarða króna árið 2020 til að búa sig undir vænt útlánatap. Þegar upp var staðið olli heimsfaraldurinn hins vegar mun minna fjárhagstjóni en óttast hafði verið og voru lánasöfnin því færð upp á við um 13 milljarða króna á síðasta ári. Þessar virðisbreytingar bættu 1,5-2,5% við arðsemi bankanna á síðasta ári eftir að hafa dregið hana umtalsvert niður árið 2020.

Í alþjóðlegum samanburði virðist arðsemi íslensku bankanna þriggja ekki vera óeðlileg, þótt Arion hafi skilað hærri arðsemi en aðrir bankar í samanburði sem Viðskiptablaðið tók saman. Miðgildi arðsemi sex stærstu banka Norðurlandanna var 11,5% og voru sænsku bankarnir SEB og Swedbank þar fremstir með 13,9% og 13,2% arðsemi. Danske Bank rak lestina með 7,6% arðsemi.

Sé litið til stærstu banka Evrópu sem skilað hafa ársuppgjörum og gefa upp arðsemi eigin fjár var hún almennt lægri en hjá norrænu bönkunum. Nam miðgildi þeirra 8,2% og var spænski bankinn Santander þar efstur með 9,7%.

Erlendu samanburðarbankarnir eiga þeir það sameiginlegt með íslensku bönkunum að hafa allir aukið arðsemi sína á milli ára. Mestar voru sveiflurnar hjá Santander og Societe Generale sem fóru úr neikvæðri arðsemi í jákvæða, en sveifla Santander nam tæpum 20 prósentum en Societe General rúmum 11 prósentum. Að öðru leyti voru sveiflur íslensku bankanna meiri en hjá erlendum bönkum, en arðsemi þeirra á síðasta ári var jafnframt í lakari kantinum, sérstaklega í samanburði við norrænu bankana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .

Arðsemi eiginfjár íslensku bankanna og valdra erlendra banka
Arðsemi eiginfjár íslensku bankanna og valdra erlendra banka