Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 20,3% á síðastliðnum 12 mánuðum. Þetta kemur fram í frétt á vef Þjóðskrár.

Vísitalan hefur hækkað um 1,7% á milli desember og janúar. Hún hefur jafnframt hækkað um 4,2% á síðustu þremur mánuðum og 8,7% á síðastliðnum 6 mánuðum. Íbúðaverð hefur nú hækkað um 28% frá upphafi faraldursins.

Undirflokkur vísitölunnar fyrir sérbýli hækkaði um 1,1% á milli mánaða. Á síðustu tólf mánuðum hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22,5% samkvæmt vísitölunni. Meiri hækkun var á fjölbýli í janúarmánuði en sá liður hækkaði um 1,8% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 19,5% á einu ári.

Vaxtalækkanir Seðlabankans í kjölfar lífskjarasamninganna og heimsfaraldurins hafði jákvæð áhrif á vaxtakjör á fasteignalánum og hefur fyrstu kaupendum fjölgað mikið að undanförnu. Seðlabankinn er nú í miðju vaxtahækkunarferli og eru meginvextir nú orðnir 2,75%, þeir sömu og fyrir faraldurinn.