Icelandair leitar að starfsfólki í flugþjónustu til að sinna ýmiss konar störfum tengdum flugrekstri. Störfin eru auglýst á atvinnumiðlunarvefnum Alfreð og auglýsingin var skráð í gær.

Meðal verkefna sem auglýst er eftir fólki til að vinna eru innritun, bókanir, upplýsingagjöf, afgreiðsla, lestun og losun og akstur með vörusendingar, auk annarra tilfallandi verkefna.

Um full störf á vöktum er að ræða, en hlutastörf við komur og brottfarir flugvéla, og umsóknarfrestur er til 13. ágúst.

Icelandair hefur sem kunnugt er átt í miklum rekstrarvandræðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, og endursamið við flugstéttirnar þrjár: flugmenn, flugþjóna og flugvirkja. Þá var um 2.000 starfsmönnum sagt upp í lok apríl .

Til stóð að ráðast í hlutafjárútboð í sumar til að bæta fjárhagsstöðu félagsins, en fresta þurfti því fram í ágúst þegar samningar við Flugfreyjufélagið drógust á langinn. Voru þeir loks undirritaðir í lok síðasta mánaðar.

Uppfært: Á vefsíðu flugfélagsins er að finna sömu auglýsingu, en þar kemur ennfremur fram að starfsstöðin sé á Ísafirði.