Úrvalsvísitalan hækkaði um meira en eitt prósent annan daginn í röð er þrettán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru græn og fjögur rauð í 8,2 milljarða króna viðskiptum. Arion leiddi hækkanir en bankinn hækkaði um 3% í 1,8 milljarða króna veltu. Gengi Arion, sem skilar ársuppgjöri síðar í dag, er nú komið upp í 186,5 krónur á hlut.

Icelandair fylgdi þar á eftir í 2,9% hækkun í tæplega milljarðs króna veltu. Hlutabréfaverð flugfélagsins stendur nú í 2,16 krónum á hlut eftir 19% hækkun í ár. Frá því að fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital, stærsti hluthafi Icelandair með 15,7% hlut, fjárfesti í flugfélaginu fyrir rúma 8 milljarða króna síðasta sumar á kaupgenginu 1,43 krónur á hlut hefur Icelandair hækkað um 51%.

VÍS hækkaði um 2,6% í 683 milljóna veltu í dag og hefur nú hækkað um 5,8% á tveimur dögum. Gengi Kviku hækkaði einnig annan daginn í röð og er nú komið í 25 krónur á hlut, 5% hærra en í byrjun vikunnar. Hlutabréfaverð Marel hefur sömuleiðis hækkað um 4% í vikunni en 1,2 milljarða króna velta var með bréf félagsins.