Icelandair hyggst halda áfram að nýta sömu gerðir flugvéla í flugflota sínum fram til ársins 2026 hið minnsta að því er fram kom í uppgjöri félagsins í morgun. Félagið hefur að undanförnu haft til skoðunar arftaka Boeing 757 og sagt bæði Boeing og Airbus flugvélar koma til greina, þar á meðal Airbus 321 LR.

Nú hefur félagið gefið út að þeirri vinnu sé lokið í bili og niðurstaðan sé að halda sig við sömu gerðir flugvéla í flotanum á fyrri hluta þessa áratugar. Ákvörðun um arftaka Boeing 757 hefur því verið frestað þar til notkun þeirra verður hætt í kringum árið 2026.

Nýjar Boeing 737 MAX flugvélar hafa verið hryggjarstykkið í nýju flota félagsins og mun fjórtán slíkar vélar vera í leiðakerfinu í sumar. Alls mun Icelandair nýta þrjátíu flugvélar í millilandaflugi, þar af þrettán Boeing 757 og þrjár Boeing 767.

Núverandi samsetning henti leiðakerfinu vel að sögn félagsins. Fljúga á til 50 áfangastaða þar sem leiðakerfið samsvarar um 80% af umfangi ársins 2019. Þá ætlar Icelandair að skila hagnaði á árinu, í fyrsta sinn frá 2017, eftir 13 milljarða króna tap í fyrra.