Icelandair segir að þegar farþegaflug félagsins hefjist á ný mánudaginn 15. júní næstkomandi þurfi allir áhafnarmeðlimir sem og farþegar, að undanskildum börnum undir 12 ára aldri að vera með andlitsgrímur um borð.

Eins og sagt hefur verið frá hyggst félagið hefja á ný daglegt áætlunarflug til lykiláfangastaða frá og með 15. júní og er félagið sagt stefna að allt að 41 ferð á dag seinni hluta mánaðarins, en félagið segir undirbúning þess nú vera í fullum gangi.

Meðal annars sé verið að undirbúa sölu- og markaðsmál félagsins og frekari útfærslu sóttvarna um borð. Heilsa og öryggi farþega og starfsfólks eru sögð forgangsmál og félagið fylgi áfram ráðleggingum sóttvarnarlæknis.

Ákvörðunin um notkun andlitsgríma er sögð til að gæta fyllsta öryggis og koma í veg fyrir möguleg smit, til viðbótar við aðrar sóttvarnir, svo sem handþvott og notkun handspritts.

Engin matarþjónusta en vatnsflöskur afhentar við inngang

Þjónusta verður áfram takmörkuð af öryggisástæðum og verður til að mynda engin matarþjónusta um borð fyrst um sinn en vatnsflöskur verða afhentar þegar gengið er um borð. Þjónustustig verður endurmetið þegar á líður.

Þá verður Saga Shop lokuð að minnsta kosti fyrst um sinn. Félagið mun halda áfram að leggja áherslu á aukin þrif um borð í vélunum. Allir snertifletir eru þrifnir sérstaklega fyrir hvert flug og salerni sótthreinsuð á milli fluga.

Farþegar eru hvattir til að koma með sínar eigin grímur en grímur verða einnig tiltækar um borð í vélunum. Mælt er með því að fleiri en ein gríma verði höfð meðferðis fyrir ferðalagið.

Andlitsgríman má vera hvort sem er heimagerð eða keypt, en hún verður að hylja nef og munn. Taka má grímur niður til að neyta matar og drykkja um borð í vélinni. Farþegar sem finna fyrir flensulíkum einkennum hvattir til að fresta ferðalagi sínu.

Ennfremur er vel fylgst með loftgæðum um borð á meðan flugi stendur. Í vélum Icelandair er notast við HEPA (e. High Efficiency Particulate Air) lofthreinsibúnað, sem er samskonar búnaður og notaður er á skurðstofum. Búnaðurinn tryggir að alger loftskipti eiga sér stað 20 til 30 sinnum á hverri klukkustund.

Saga Lounge setustofa Icelandair verður opin en þar hefur jafnframt verið gripið til viðeigandi ráðstafana en lágmarksþjónusta verður í boði og allar veitingar forpakkaðar.