Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia og hagfræðingurinn Magnús Árni Skúlason ræddu um stöðu íslensku flugfélaganna í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá þá hafa Icelandair og WOW air tekið þráðinn upp á nýju í samningviðræðum um kaup fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda.

Jón Karl segir að staðan sé mjög erfið, samningar við Indigo Partners hafi tekið of langan tíma. Hann bendir á að yfirleitt þegar verið sé að ganga frá kaupum á fyrirtækjum flýti menn sér að því eins og mögulegt er til þess að geta haldið áfram rekstri yfirtekna félagsins. ,,Þessar tafir mánuð eftir mánuð það er búið að vera mjög merkilegt að horfa á það."

Var hann í kjölfarið spurður hvort hann telji að Indigo Partners hafi í raun ætlað sér að kaupa WOW air. ,,Ég er hræddur um að þeir hafi fyrst og fremst ætlað að þefa og læra af þessu. Þeir náðu ,,slottunum" á Gatwick og það er ýmislegt sem bendir til þess að þeir hafi fengið margt af því sem þeir ætluðu sér í þessu samhengi."

Þá segist hann ekki telja að Icelandair muni kaupa WOW air og bendir þar á vandamál tengd skuldabréfaútboði félagsins, tapreksturinn undanfarið og þær skuldibindingar sem framundan séu. Því sé erfitt að sjá fyrir sér að félagið verði keypt í heilu lagi. Hann telur að samtalið snúist því aðallega um það að tryggt sé að farþegar WOW air komist leiða sinna, ekki ósvipað og var gert í tilfelli Air Berlin, þegar flugfélagið sigldi í þrot. Þá telur Jón Karl að það myndi taka markaðinn eitt til eitt og hálft ár að jafna sig á brotthvarfi WOW air af markaði.

Íslensku flugfélögin að glíma við ofursamkeppni

Magnús benti á að flug hingað til lands sé þjóðbraut til landsins og ef hún raskist skapist mikill vandi hjá aðilum sem reiða sig á ferðamenn, meðal annars veitingahúsum og hótelum. Að hans sögn eru bæði íslensku flugfélögin að glíma við ofursamkeppni yfir Norður-Atlantshafið. Hann segir að leiðarkerfi flugfélaganna hafi spilað lykilhlutverk í þeirri sprengingu sem hefur átt sér stað í aukningu ferðamanna hingað til lands. ,,Ég held að ferðaþjónustan þurfi aðeins að átta sig á því að þetta er eins og að skrúfa fyrir vatnshana - ef þú tekur allt í einu 20% af framboðinu út, þá er 20% minna eftir í krananum hjá þér. Það er þetta sem ég hef mestar áhyggjur af. Þetta er ung atvinnugrein og hún er mjög skuldsett," sagði hann.

Að sögn Magnúsar er það þó engin ,,katastrófa" þó að eitt flugfélag hverfi af markaði, enda leysi markaðurinn það með tímanum.

Ferðaþjónustan marki stefnu

Jón Karl sagði það gamla mýtu að það þurfi að vera til staðar íslensk flugfélög og benti hann á að ekkert flugfélag í Belgíu sé í eigu Belga. Segir hann tíma gömlu góðu ríkisflugfélaganna og svokallaðra flaggskipa, vera búin.

Þá segist Jón Karl taka undir það að staðan sé erfið, sérstaklega vegna þess hve mikið viðræðurnar hafi dregist á langin og nú sé stutt í sumarið. Hann hafi þó meiri trú á markaðnum en það að það þurfi að vera flugfélag á markaðnum með íslenska aðkomu. Hann telji vera tækifæri og möguleikar til staðar, en hann bendir jafnframt á að rekstur íslenskra flugfélaga þurfi að vera sjálfbær, sem hann hefur ekki verið undanfarið.

,,Launakostnaður á Íslandi hefur undanfarin ár verið of hár, samkeppni yfir Norður-Atlantshafið hefur aukist mikið og íslensku félögin eru aðeins með samtals um það bil 2% af sætaframboði yfir hafið - þau eru hvorki markaðslega leiðandi né verðleiðandi - því verðum við bara að horfa á þetta eins og þetta er. Staðan er erfið og flókin," sagði hann. Þá bendir hann á að stefnumótun hafi skort innan ferðaþjónustunnar, fjölgun ferðamanna hafi gerst - frekar en að eitthvað hafi verið gert til að stuðla að því. Kallar hann eftir því að ferðaþjónustan setjist niður og marki stefnu.