Ísland er í 25. sæti af 136 á lista yfir samkeppnishæfustu ferðamannastaði heimsins í ár. Þetta er niðurstaðan í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins sem birt var fyrr í mánuðinum. Ísland fellur niður um sjö sæti frá því að ráðið gaf út sambærilega skýrslu árið 2015. Líkt og árið 2015 eru Spánn, Frakkland og Þýskaland í þremur efstu sætum listans. Evrópa er leiðandi á listanum.

Af Norðurlöndunum er Ísland í þriðja sæti á eftir Noregi og Svíþjóð. Ísland kemur vel út úr samanburðinum varðandi mannauð, innviði ferðaþjónustunnar, öryggi, heilbrigðismál, upplýsingatækni og sjálfbærni í umhverfismálum. Á móti dregur hátt verðlag og skortur á menningarlegri afþreyingu úr samkeppnishæfni landsins í ferðaþjónustu.

Samkvæmt skýrslunni fer ferðamönnum til og frá þróunarlöndum fjölgandi. Ferðamönnum fer almennt fjölgandi og þeim er gert auðveldara að ferðast. Ferðaþjónusta á heimsvísu stendur frammi fyrir vandamálum tengdum sjálfbærni í umhverfismálum, samkvæmt skýrslunni.