Japan og Evrópusambandið hyggjast undirrita fríverslunarsamning í dag. Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, hittir forsvarsmenn Evrópusambandsins í lok fundar G20 ríkjanna sem haldinn verður í Þýskalandi.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, hefur tekið fram að sanngjarn og metnaðarfullur samningur væri í býgerð. Viðræður milli Japans og ESB hafa farið fram frá árinu 2011.

Nýverið sendi íslenska Viðskiptaráðið í Japan frá sér yfirlýsingu þar sem kallað var eftir fríverslunarsamningi Íslands við Japan. Þar kom fram að þegar þessi samstarfssamningur ESB og Japans yrði samþykktur teldi Viðskiptaráðið kjörið að Japan gerði samskonar samstarfssamning við Ísland í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Innan EFTA er einungis Sviss með fríverslunarsamning við Japan. Japan er stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu.