Hagnaður Kaldalóns nam 371 milljón króna á síðasta ári samanborið við 204 milljónir króna árið 2019.  Heildareignir félagsins námu 6,1 milljarði króna í árslok og hækkuðu um 535 milljónir milli ára.

Eigið fé í árslok var 4,6 milljarðar króna og heildarskuldir 1,4 milljarðar, þar af var rúmur milljarður króna við tengt félag innan samstæðu. Eiginfjárhlutfall í lok síðasta árs var því 76,2%. Í lok síðasta árs var verðmæti lóða og byggingaverkefna dótturfélaga Kaldalóns 7,8 milljarðar króna og skuldir við lánastofnanir 3,7 milljarðar króna. Á núverandi lóðum félagsins er reiknað með uppbyggingu um það bil 700-800 íbúða. Til viðbótar á Kaldalón hluti í Steinsteypunni, Nes þróunarfélagi, Kárnesbyggð og Vesturbugt.

Afkomuspá fyrir næstu þrjú ár var lækkuð, meðal annars vegna sölu á byggingarétt í Hnoðraholti og fyrirséðrar seinkunar á tilteknum verkefnum. Ástæðu seinkunar megi rekja að hluta til afleiðinga heimsfaraldursins en „einnig hefur reynsla stjórnenda leitt í ljós að lengri tíma tekur að hanna og undirbúa framkvæmdir en gert hafði verið ráð fyrir“, segir í tilkynningu samhliða birtingu ársreiknings.

Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að hagnaður félagsins fyrir skatta verði:

  • Árið 2021: 800-940 milljónir króna
  • Árið 2022: 1.400-1.651 milljónir króna
  • Árið 2023: 1.940-2.260 milljónir króna

Fyrri afkomuspá var:

  • Árið 2020: 370-430 milljónir króna
  • Árið 2021: 1.560-1.820 milljónir króna
  • Árið 2022: 1.810-2.120 milljónir króna

Kaldalón gerir ráð fyrir að á lóðum félagsins verði um 200 íbúðir í byggingu í lok árs 2021. Þær munu koma á markað árið 2023. Félagið býst við að ljúka framleiðslu á 51 íbúð í Urriðaholti í ár. Kaldalón vinnur einnig að undirbúningi framkvæmda í Vesturbugt í Reykjavík í gegnum dótturfélag þar sem félagið hyggur á uppbyggingu tæplega 200 íbúða sem hefjast mun á næstu misserum.

Félagið hefur einnig unnið að undirbúningi á 71 íbúð að Stefnisvogi 2 í Vogabyggð í Reykjavík. Alls eru rúmlega 320 íbúðir í Vogabyggð í þróun og uppbyggingu á vegum félagsins og hefur stjórn Kaldalóns ákveðið að kanna sölu á hluta af lóðum félagsins í Vogabyggð til að flýta fyrir uppbyggingu á svæðinu.

Þá er hönnun 84 íbúða á Steindórsreit í Reykjavík lokið og undirbúningur framkvæmda á lokastigi og ráðgert að framkvæmdir hefjist á öðrum fjórðungi þessa árs.