Grímuskylda sem hefur verið í gildi innan almenningssamgangna í Bandaríkjunum verður felld á brott í kjölfar dóms sem féll í Flórída þess efnis að grímuskyldan væri andstæð lögum. Reuters greinir frá.

Stjórnvöld settu grímuskylduna á til að freista þess að hægja á útbreiðslu Covid-19 faraldursins í landinu.

Bandarísk flugfélög hafa tekið þessum fréttum fagnandi og stór félög á borð við Alaska Airlines, American Airlines, Delta Air Lines og United Airlines sent frá sér yfirlýsingar þar sem greint er frá því að nú sé valkvætt hvort fólk beri grímu um borð eður ei.