Bókfærður kostnaður tíu stærstu lífeyrissjóða landsins nam rúmlega 7,6 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningum sjóðanna. Með bókfærðum kostnaði er átt við rekstrarkostnað auk beinna fjárfestingagjalda sem koma til vegna eigin eignastýringar sjóðanna. Nam rekstrarkostnaður sjóðanna rúmlega 6,3 milljörðum króna á meðan bein fjárfestingargjöld námu rúmlega 1,3 milljörðum. Þessi upphæð hækkar hins vegar verulega þegar kostnaður vegna þóknana til fjárfestingarsjóða sem annast fjárfestingar fyrir viðkomandi lífeyrissjóði er tekinn með í reikninginn.

Oft er talað um þessi gjöld sem reiknuð eða óbein fjárfestingargjöld og þegar þeim er bætt við hækkar heildarkostnaður sjóðanna um 8,5 milljarða. Samtals nam heildarkostnaður þeirra því um 16,1 milljarði króna á síðasta ári. Hrein eign tíu stærstu lífeyrissjóða landsins nam 3.431 milljarði króna í lok árs 2017 á meðan hrein eign kerfisins alls nam um 3.933 milljörðum króna.

Ástæða þess að umsýsluþóknanir eru ekki taldar til bókfærðs kostnaðar er sú að þær dragast frá ávöxtun viðkomandi sjóða og eru því ekki greiddar beint. Þá er kostnaður einnig oft gerður upp eftir á vegna árangurstenginga og því liggja upplýsingar um raunkostnað ekki alltaf fyrir.

Breytir kostnaðarhlutfallinu töluvert

Eins og áður segir hækkar kostnaður lífeyrissjóðanna töluvert þegar reiknuðum fjárfestingargjöldum er bætt við og þar af leiðandi hækkar kostnaðarhlutfall þeirra. Bókfærður kostnaður sem hlutfall af heildareignum var að meðaltali 0,22% hjá sjóðunum tíu en kostnaðarhlutfallið hækkar upp í 0,47% þegar óbeinu gjöldunum er bætt við.

Talsverður munur er á milli þess hve mikið hlutfallið hækkar hjá sjóðunum. Mest hækkar hlutfallið hjá Festu lífeyrissjóði en þar fer hlutfallið úr 0,21% í 0,62% þegar þessum kostnaði er bætt við. Munurinn er hins vegar minnstur hjá Almenna lífeyrissjóðnum en þar hækkar hlutfallið úr 0,29% í 0,42%. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fer hlutfallið úr 0,16% í 0,36%, úr 0,16% í 0,4% hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og úr 0,16% í 0,48% hjá Gildi lífeyrissjóði en   samanlagðar eignir þessara þriggja sjóða eru um helmingur af heildareignum allra lífeyrissjóða.

Þá má geta þess að munur milli bókfærðs kostnaðar og heildarkostnaðar ræðst að miklu leyti af því hve stór hluti eignarstýringar sjóðanna fer fram hjá þeim sjálfum eða hvort henni sé útvistað til fjárfestingarsjóða. Þá getur einnig verið töluverður munur á hve dýrir fjárfestingarsjóðirnir eru. Sem dæmi má nefna að fjárfestingarsjóðir sem fjárfesta í vísitölum eru oftast ódýrari en sjóðir sem eru með virka stýringu eða framtaksjóðir sem fjárfesta í fyrirtækjum sem ekki eru skráð á hlutabréfamarkað.

Leiðrétting: Upphaflega kom fram að bókfærður kostnaður LSR hafi numið 0,22% af heildareignum og heildarkostnaður hafi verið 0,41%. Rétta er að hlutfall bókfærðs kostnaðar var 0,16% og heildarkostnaðar 0,36% af heildareignum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .