Gengi íslensku krónunnar styrkst um 0,7% í gær gagnvart evru og 1,2% gagnvart dollara og 1% gagnvart breska pundinu. Ein evra kostar nú ríflega 141 krónur og hefur ekki verið lægra frá upphafi kórónuveirufaraldursins í mars árið 2020.

Gengi krónunnar gagnvart evru hefur því styrkst um 3,4% frá áramótum og 8,4% undanfarið ár. Evran fór hæst í 165 krónur í október árið 2020. Dollarinn stendur í 124 krónum og breska pundið í 168 krónum.

Sjá einnig: Frekari styrking í kortunum

Seðlabankinn hefur að undanförnu beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til að hægja á styrkingu krónunnar. Samkvæmt gögnum á vef Seðlabankans keypti bankinn gjaldeyri fjóra viðskiptadaga af sjö á milli 28. janúar til 8. febrúar fyrir tæpa tíu milljarða króna til að halda aftur af styrkingu krónunnar.

Í ritinu Peningamál sem Seðlabankinn gaf út í síðustu viku kom fram að krónan hafi styrkst um 5,5% gagnvart meðaltali gjaldmiðla helstu viðskiptalanda frá síðustu útgáfu Peningamála í nóvember en væri um 2,5% lægra en þegar fyrstu Covid-19 smitin greindust hér á landi í lok febrúar 2020. Gjaldeyrisviðskipti í tengslum við nýfjárfestingu og erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða hafi verið fremur lítil undir lok síðasta árs að undanförnu en framvirk sala á gjaldeyri hafi aukist.